Leikstjórnandinn Gabríel Sindri Möller hefur gengið frá samningum við bandaríska háskólaliðið Augusta Jaguars sem leikur í annari deild háskólaboltans.

Gabríel lék með liði Skallagríms í Dominos deildinni seinni hluta síðasta tímabils þar sem hann var með 5,7 stig að meðaltali í leik. Þar áður lék hann með Hamri auk Gnúpverja. Gabríel er alinn upp hjá Njarðvík og lék upp alla yngri flokka þar.

„Gabríel er hreinn leikstjórnandi sem hefur spilað vel fyrir landslið Íslands.“ sagði þjálfari liðsins Metress. „Það fyrsta sem ég tók eftir var sendingargeta hans og sýn hans á vellinum. Hann er öflugur varnarmaður og gerir okkur kleift að vera skapandi með liðið okkar í vetur.“