Þjálfari íslenska karlalandsliðsins, Craig Pedersen, var reiðubúinn fyrir komandi verkefni þegar Karfan leit við á æfingu hjá honum í gær. “Liðið hefur verið að æfa og spila vel saman á æfingum svo liðsheildin er góð eins og hún hefur reyndar alltaf verið. Við erum bara að venjast hverjum öðrum aftur upp á nýtt,” segir Craig en liðið spilaði síðast saman á Smáþjóðleikunum í Svartfjallalandi í lok maí þar sem þeir hrepptu bronsið.

Liðið mun spila fjóra leiki í ágúst gegn Sviss og Portúgal og byrja á útileik gegn Portúgal. “Það væri frábært að byrja á því að stela sigri á Portúgal en þetta er mjög opinn hópur. Það geta allir unnið alla í þessum riðli og aldrei að vita hverjir enda í efsta sætinu,” segir Craig en efsta liðið úr þessum riðli fer áfram í undankeppni fyrir EM 2021. “Sviss er kannski í eilitlu uppáhaldi vegna þess að þeir hafa NBA leikmann innanborðs, en okkur finnst við samt geta unnið þá,” bætir hann við en Clint Capela, miðherji Houston Rockets, mun spila með Sviss í þessum landsleikjaglugga.

Ef Ísland kemst áfram upp úr forkeppninni bíður þeirra ærið verkefni í nóvember, en þá verða þeir í undankeppnisriðli með Serbíu, Finnlandi og Georgíu. Craig er meðvitaður um hve erfiður riðilinn verður en furðar sig þó á að Georgía sé í undankeppninni. “Við höfum fengið þær fregnir að Georgía mun vera meðal gestgjafaþjóðanna svo þeir komast sjálfkrafa áfram upp úr undankeppninni. Ég skil ekki af hverju þeir eru að keppa um sæti sem þeir hafa nú þegar fengið, það tekur pláss frá öðrum liðum í riðlinum okkar,” segir hann en Georgía er einmitt með tryggt sæti á EM 2021 fyrst að þeir munu hýsa einn riðill í keppninni. “Við viljum fyrst einbeita okkur að forkeppninni, hins vegar. Margt getur breyst áður en við þurfum að hafa áhyggjur af þeim leikjum,” segir Craig en hann vantar einmitt nokkra lykilleikmenn í liðið.

“Okkur vantaði hjálp frá leikmanni sem gæti leyst bæði fjarkann og fimmuna. Hver annar en Hlynur kæmi til greina?”

Skömmu áður en æfingar hófust duttu nokkrir leikmenn út úr hópnum svo KKÍ og landsliðsþjálfarateymið sá sig knúið að biðja Hlyn Bæringsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliða, að taka slaginn aftur með liðinu eftir að hann lagði skóna á hilluna fyrr á árinu. “Við vildum aldrei að Hlynur færi,” sagði Craig strax um ákvörðunina að velja hann aftur í liðið. “Okkur vantaði hjálp frá leikmanni sem gæti leyst bæði fjarkann og fimmuna. Hver annar en Hlynur kæmi til greina?”

Craig er ánægður með að Hlynur gat snúið aftur og segir að miðherjinn knái sé enn í frábæru formi og sem betur fer leyfði dagskráin hans að hann kæmist á æfingar með liðinu núna. Liðið þarf alla þá hjálp sem býðst enda vantar stólpa eins og Hauk Helga, sem vegna ákvæðis í samningi hans við rússneska liðið BC Unics Kazan gat ekki gefið kost á sér. “Við gerðum auðvitað ráð fyrir Hauki Helga og vildum hafa hann á vængjunum með Martin, þeir eru banvænir saman þar. Það bara gekk ekki eftir og við verðum að halda ótrauðir áfram,” sagði Craig. 

“Martin og Tryggvi halda áfram að bæta sig í hvert skipti sem landsliðið kemur aftur saman.”

Leikmenn eins og Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason hafa verið að gera góða hluti með sínum liðum í Evrópu og landsliðsþjálfari þeirra kveðst sjá þá bæta sig trekk í trekk. “Það sem mér hefur þótt tilkomumest með þá er að Martin og Tryggvi halda áfram að bæta sig í hvert skipti sem landsliðið kemur aftur saman. Þá meina ég ekki að þeir hafa bætt sig pínulítið heldur þannig að það er eftirtektarvert. Vonandi heldur það áfram að styrkja okkur enn meira,” segir hann og bendir á að samheldni liðsins er frábær eins og ævinlega, allir eru að spila fyrir hvern annan og að þannig spil eigi eftir að skila sér í betri og betri árangri á næstu árum.

Fyrsti leikur landsliðsins verður á Portúgal þann 7. ágúst, síðan verða tveir heimaleikir við Sviss og Portúgal í Laugardalshöllinni 10. og 17. ágúst og að lokum mun liðið halda út til Sviss og freista þess að stela útisigri þann 21. ágúst.