Undir 18 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumóti í Oradea í Rúmeníu. Í dag vann liðið lokaleik sinn í riðlinum gegn Lúxemborg, 96-38.

Fátt virtist benda til þess að munurinn yrði mikill á liðunum í upphafi leiks. Eftir fyrsta leikhluta var Ísland aðeins einu stigi yfir, 18-17. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Ísland þó að byggja upp smá forystu. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 37-25 Íslandi í vil.

Strax í upphafi seinni hálfleiksins fóru íslensku strákarnir að sýna mátt sinn og megin. Gera nánast útum leikinn í þriðja leikhlutanum og sigla svo að lokum frekar þægilegum 58 stiga sigri í höfn, 96-38.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Júlíus Orri Ágústson, en hann skoraði 15 stig, tók 10 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og stal 6 boltum.

Næst leikur liðið komandi föstudag 2. ágúst í umspili um sæti 9-16 á mótinu.

Tölfræði leiks

Upptaka af leiknum