Elvar Már Friðriksson hefur samið við lið Borås Basket í sænsku úrvalsdeildinni og mun leika með liðinu á næstu leiktíð. Þetta tilkynnti félagið fyrr í dag.

Landsliðsmaðurinn var á meðal bestu leikmanna í Dominos deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann var með 21,2 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Njarðvík. Auk þess var hann með 40% þriggja stiga nýtingu.

„Félagar mínir úr landsliðinu gafa spilað í Svíþjóð og hafa bara sagt góða hluti um sænsku úrvalsdeildina. Einnig hef ég heyrt góða hluti um fólkið og lífði hér. Ég þekkti Borås Basket því Jakob Sigurðarson spilaði hér og þess vegna fylgdist ég með liðinu. Liðið átti frábært tímabil og eftir að hafa talað við Svenson þjálfara var ákvörðunin einföld.“ sagði Elvar á heimasíðu Borås.