Næstar á sviðið í Röstinni voru stúlkurnar í 10. flokki en eins og oft áður undanfarin ár þegar mikið lá við, þá mættust Grindavík og Njarðvík í úrslitunum en þessi lið hafa marga hildi háð í gegnum tíðina.  T.d. mættust liðin í bikarúrslitunum þar sem þær gulu höfðu betur.

Ólíkt drengjunum í 10. flokki þá hófst úrslitakeppnin með 8-liða úrslitunum en Grindavík og Njarðvík voru efst og jöfn að lokinni deildarkeppni, hvort með 1 tap (á móti hvort öðru).

Leið liðanna í úrslitaleikinn:

8-liða úrslit: Grindavík – Snæfell 59-33 og í undanúrslitunum í gær unnu þær gulklæddu sameiginlegt lið norðanstúlkna, Tindastóll/Þór Ak, 63-41.

Um sannkallaðan „derby-leik“ var að ræða í 8-liða úrslitunum hjá Njarðvíkurstúlkum því þær mættu Njarðvík b….. og unnu öruggan sigur, 83-21.  Í undanúrslitunum í gær var um annan derby-leik að ræða en ekki eins mikinn derby, þá mættu þær nágrönnum sínum úr Reykjanesbæ, Keflavík og unnu eftir hörku leik, 54-40.

Leikurinn byrjaði sem eign heimastúlkna og unnu þær 1. fjórðung 16-11 og var vörnin geysisterk.  Áfram jókst munurinn í 2. og áttu ljónynjurnar úr Njarðvík í mestu erfiðleikum með að finna körfuna og skoruðu aðeins 7 stig í leikhlutanum á móti 15 hjá Grindavík og munurinn því 13 stig í hálfleik, 31-18.

Grindavíkurstelpur voru að hitta vel í fyrri hálfleik, settu til að mynda öll 9 vítin sín niður! Júlía Ruth Thasaphong var atkvæðamest, komin með 15 í framlag (8 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar) en Elísabet Ýr Ægisdóttir var stigahæst með 10 stig.

Hjá Njarðvík var Lára Ösp Ásgeirsdóttir sú eina sem var að skila einhverju framlagi, var komin með 8 (9 stig og 2 fráköst) í hálfleik.

Ljóst að Bylgja Sverris þjálfari Njarðvíkur, myndi lesa rækilega yfir sínum stúlkum í hálfleik!

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri, gular mun betri.  Eftir tæpar 4 mínútur voru Njarðvíkingar einungis búnar að setja niður 1 víti og voru áfram í vandræðum með að skora en sem betur fer fyrir þær þá voru þær gulklæddu litlu skárri en þó búnar að setja 4 punkta, staðan orðin 35-19 og ljóst ef ekki yrði kúvending þá myndi titillinn enda í „gulri paradís“ eins og segir í kvæðinu…  Staðan fyrir lokaballið 39-24.  Lítið skorað, 8-6 fyrir Grindavík í þessum leikhluta.

Það var deginum ljósara að eitthvað mikið þyrfti að breytast til að Grindavík tæki ekki tvennuna en munurinn á liðunum var einfaldlega of mikill.  Grindavík sigldi sigrinum hægt og örugglega í höfn og vann að lokum öruggan sigur, 45-32 og er því tvöfaldir meistarar 2019!

MVP var valin Júlía Ruth Thasaphong en hún var með flotta tvennu, 12 stig og 10 fráköst sem skilaði sér í hæstu framlagi eða 18.  Elísabet Ýr Ægisdóttir lét ekki sitt eftir liggja og var stigahæst gulra með 16 stig.  Þær stöllur hreinlega áttu teigana í dag!

Hjá Njarðvík steig baráttukonan Vilborg Jónsdóttir upp í seinni hálfleik og stóð sig vel en mátti ekki við margnum.  Vilborg skilaði í 16 framlag (12 stig og 10 fráköst) en hefði þurft meiri aðstoð frá liðsfélögum sínum.

Við óskum Grindavíkurstelpum til hamingju með sigurinn!

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði