Úrslitakeppni unglingaflokks karla og 10. flokks drengja/stúlkna hófust í dag í Röstinni í Grindavík og mun Karfan gera helginni góð skil.

Unglingaflokkur karla reið á vaðið og voru það Njarðvíkingar og Fjölnismenn sem byrjuðu.  Njarðvíkingar fyrirfram mun sigurstranglegri en þeir höfðu fyrir leikinn ekki tapað leik í allan vetur og unnu því deildakeppnina örugglega og fengu liðið sem endaði nr. 8 í fjórðungsúrslitunum, Þór Þorlákshöfn!  Þeir fóru auðveldlega í gegnum þessa fyrstu atrennu og unnu 101-64.

Fjölnismenn sem enduðu nr. 6 í deildarkeppninni, fengu hins vegar liðið sem endaði nr. 3 og létu allar hrakspár sem vind um eyru þjóta og tóku ÍR-inga í hörku leik, 65-67!

Skv. gengi liðanna í vetur átti að verða um göngutúr í garðinum að ræða fyrir Njarðvíkinga og má segja að sú hafi verið raunin.  Njarðvík leiddi með 21 stig í hálfleik og þótt Fjölnismenn hefðu minnkað muninn í 10 stig í byrjun seinni hálfleiks þá einfaldlega setti Njarðvík í fluggírinn að nýju og unnu að lokum öruggan sigur, 83-65.  Auðvitað skipti máli fyrir Fjölni að missa sinn besta mann, Rafn Kristján Kristjánsson út af meiddan í byrjun seinni hálfleiks en fram að því höfðu ljónin einfaldlega verið mun grimmari.

Ef ég á að velja besta mann Njarðvíkur þá á ég erfitt með að gera upp á milli Jón Arnórs Sverrissonar og Snjólfs Marels Stefánssonar en þeir voru helstu dráttarkláfar appelsínugulra Njarðvíkinga (já, ljónin voru ekki græn eins og venjulega).  Jón Arnór var með 22 í framlag og var kannski með meiri fjölbreytni í sinni línu og var grátlega nærri hinni heilögu þrennu ( 12 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst) en Snjólfur með sín 28 í framlag, dró skorunarvagninn mest, setti 24 stig og tók 6 fráköst.

Skv. framlagsjöfnunni góðu var Rafn Kristján yfirburðamaður hjá Fjölni en hann skilaði 21 punkti (18 stig og 4fráköst) en einungis á rúmum 21 mínútum.  Hann nýtti skot sín mjög vel sem skýrir að stórum hluta til hátt framlag.  Sá sem kom honum næstur í stigaskorun var Davíð Alexander H. Magnússon með 16 stig en þurfti til þess ansi margar tilraunir og fær því bara 6 í framlagsjöfnunni.

Tölfræði leiks

Verður fróðlegt að sjá hverjir andstæðingar Njarðvíkinga verða í úrslitunum en KR og Breiðablik eigast við í hinni viðureigninni strax á eftir þessum leik.  Úrslitaleikurinn er svo á sunnudag kl. 14:00, sömuleiðis í Grindavík. 

Oft á tíðum er um mjög flott tilþrif að ræða hjá þessum ungu leikmönnum og hafa fullt af „Domions-leikmönnum spreytt sig í vetur í unglingaflokknum og eru með á þessari „final four“ helgi, Jón Arnór og Snjólfur frá Njarðvík, Orri Hilmars úr KR, Arnór Hermanns, Hilmar Péturs og Sveinbjörn úr Breiðabliki og frá Fjölni þeir Hlynur Logi, Rafn Kristján og Egill Agnar.  Spútnik lið ÍR í Domions tefldi fram Sigurkarli Róbert og Hákoni en allt kom fyrir ekki á móti Fjölni.  Þessi upptalning eingöngu til að minna á gæðin sem eru hér í gangi og því tilvalið að renna til paradísarinnar Grindavíkur á sunnudag og sjá úrslitaleikinn!

Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði

Viðtöl: