Um helgina fór fram á Akureyri lokaumferð minni bolta 11 ára drengja. Árgangurinn, drengir fæddir 2007, er einhver stærsti hópur í Íslandsmótinu í sögunni með tæplega 70 lið frá yfir 40 liðum í heild, þar á meðal fjölmörg efnileg lið af landsbyggðinni. Fjöldinn sýnir uppgang körfuboltans á landsvísu og verður mjög gaman að fylgjast með þessum fjölmenna árgangi í framtíðinni.

Lokamótið fór vel fram í umsjón Þórs á Akureyri, grillað var reglulega og meira að segja haldið Eurovision pizzapartí á laugardagskvöldinu þar sem var mikið stuð.

Eftir harða keppni í A riðli kom til úrslitaleiks um Íslandsmeistaratitils milli Breiðabliks og Stjörnunnar, tveggja liða sem hafa verið í forystu í flokknum í allan vetur og marga hildi háð. Leikur liðanna var frábær skemmtun, hittni góð, barátta mikil, jafnt á nánast öllum tölum og algjörlega ómögulegt að spá allan leikinn hvort sigurinn myndi lenda Stjörnu- eða Blikamegin. Fór svo að Stjarnan landaði tveggja stiga sigri og varði því titil sinn frá því í fyrra og er Íslandsmeistari í minni bolta 11 ára árið 2019.