Ísland vann öruggan sigur á Möltu í fyrsta leik liðsins í körfuboltakeppni kvenna á Smáþjóðaleikunum sem nú fara fram í Svartfjallalandi. Maltverjar, sem eru ríkjandi Smáþjóðaleikameistarar kvenna, áttu einfaldlega ekki roð í íslenska liðið sem vann mjög þægilegan 26 stiga sigur, 61-35, en Ísland var 25 stigum yfir í hálfleik, 41-16.

Þóra Kristín Jónsdóttir og Hallveig Jónsdóttir voru stigahæstar í íslenska liðinu með 11 stig hvor, en Helena Sverrisdóttir kom næst með 10. Næst leikur íslenska liðið við heimakonur frá Svartfjallalandi, en sá leikur fer fram á morgun 29. maí klukkan 15:45 að íslenskum tíma.