Breiðablik hefur samið við Ívar Ásgrímsson um að þjálfa meistaraflokk kvenna á komandi tímabili í 1. deild kvenna. Þetta tilkynnti félagið fyrr í kvöld.

Ívar mun auk þess þjálfa drengja-og unglingaflokk og verður yfirþjálfari yngri flokka. Í tilkynningu Breiðabliks segir um ráðninguna: “Með ráðningu Ívars hyggst félagið setja stóraukinn kraft í yngri flokka starfið og uppbyggingu ungs og efnilegs körfuboltafólks. “

Ívar lét af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Haukum eftir margra ára starf þar sem hann hefur þjálfað hjá uppeldisklúbbnum í mörg ár. Einnig þjálfaði hann A-landslið kvenna árin 2014-2018.

Í tilkynningu Blika segir einnig:

“Það er gríðarlegur fengur fyrir Breiðablik að fá þennan reynslumikla þjálfara til liðs við félagið og til að takast á við þau fjölmörgu og skemmtilegu verkefni sem framundan eru. “

“Aðspurður hvernig honum lítist á nýja starfið hafði Ívar þetta að segja: “Ég er bara mjög spenntur að koma í þetta öfluga félag. Það er ljóst er að það er metnaður hér innanhúss og metnaður í að koma báðum meistaraflokkum upp og að nýta yngri flokkana í meistaraflokkana, eins og ég hef verið að gera síðustu ár. Við stefnum að því að gera svipaða hluti og koma Breiðablik í fremstu röð. Það verður mjög gaman að taka þátt í því verkefni.”