Leikmennirnir Hörður Axel Vilhjálmsson, Guðmundur Jónsson, Ágúst Orrason og Magnús Már Traustason hafa samið við Keflavík um að leika áfram með liðinu í Dominos deild karla. Þetta staðfestir félagið í fréttatilkynningu fyrr í dag.

Tekið er fram að Guðmundur fari í aðgerð í byrjun júní og verði klár fyrir upphaf deildarkeppninnar á nýjan leik, en hann var mikið frá á seinni hluta þess tímabils sem var að líða.

Fréttirnar koma degi eftir að félagið tilkynnti um þjálfaraskipti, þar sem Sverrir Þór Sverrisson mun ekki halda áfram með liðið og Hjalti Þór Vilhjálmsson taka við því, en hann er eldri bróðir Harðar Axels.