Landsliðskonan Hildur Björg Kjartansdóttir mun leika með liði KR á næstu leiktíð. Þetta var staðfest rétt í þessu á blaðamannafundi KR.

Hildur hefur leikið á Spáni síðustu tvö tímabil en hefur nú ákveðið að söðla um og leika með KR. Samningur hennar við KR er til eins árs.

Hildur Björg er alin upp hjá liði Snæfells en lék með Grand Valley háskólanum í Bandaríkjunum í fjögur ár. Hún á að baki 25 landsleiki fyrir Íslands hönd og verið í stóru hlutverki með landsliðinu síðustu misseri.

KR endaði í fjórða sæti Dominos deildar kvenna á nýliðinni leiktíð og komst í úrslitakeppnina. Liðið var nýliðar í deildinni og komu nokkuð á óvart. Gera má ráð fyrir að KR ætli sér stærri hluti á komandi leiktíð.