Grindvíkingar halda áfram að undirbúa meistaraflokk karla fyrir komandi átök í Dominos deildinni. Fyrr í kvöld var tilkynnt að Helgi Jónas Guðfinnsson myndi snúa aftur á bekkinn hjá Grindavík.

Þar mun hann vera aðstoðarþjálfari Daníels Guðna Guðmundssonar sem tók við liðinu í sumar. Samningur hans er til tveggja ára.

Helgi Jónas þekkir hvern krók og kima hjá Grindavík en hann lék heillengi með liðinu auk þess að þjálfa það. Hann gerði lið Grindavíkur að Íslandsmeisturum sem þjálfari árið 2012.

Grindavíkur hefur gengið frá samningum við alla helstu lykilmenn liðsins á síðustu leiktíð auk þess að fá Björgvin Hafþór Ríkharðsson frá Skallagrím til liðsins. Liðið ætlar því að gera betur en á nýliðinni leiktíð endaði Grindavík í 8. sæti og datt út í átta liða úrslitum.