Þann 7. maí 2013 var tilkynnt um ráðningu Finns Freys Stefánssonar sem þjálfara KR. Ráðning sem kom kannski ekki beint á óvart á sínum tíma, en einhverjum kom það á óvart að Finnur fékk fimm ára samning. Ekki bara var Finnur sjálfur 29 ára á þessum tíma heldur einnig er ekki mikil hefði fyrir svo löngum samning í Íslenskum körfubolta. Það þótti ljóst að KR ætlaði að setja traust sitt á Finn Frey.

Skjáskot af frétt Körfunnar frá 2013

Traustið launaði Finnur félagi sínu með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn öll fimm árin. Þann síðasta 28. apríl 2018 eftir úrslitaeinvígi gegn Tindastóli. Fljótlega eftir að titillinn var í höfn varð svo ljóst að Finnur myndi ekki halda áfram með liðið og svo tók Ingi Þór Steinþórsson við því.

Mynd / KR

Ár komið síðan. Finnur hefur enn ekki ráðið sig til starfa hjá meistaraflokki annars liðs og margir eflaust að velta því fyrir sér hvað hafi dregið á daga fimmfalda meistarans Finns Freys Stefánssonar síðan að hann hætti.

Karfan setti sig í samband og spurði hann eilítið út í “fríið”, síðasta tímabil og framtíðina.

Nú vinnur þú fimm titla í röð, með sögulegu liði KR, var ekkert erfitt að vera ekki í eldlínunni nú í lokaúrslitunum?

“Neinei mér fannst þetta bara skemmtileg tilbreyting. Úrslitakeppninni í körfunni er svo mikil veisla að það er gaman að fá að njóta hennar allrar án þess að vera bara inní sinni eigin playoffs bubblu að fókusera á sitt lið. Maður horfði á fleiri leiki og með opnari hug útaf Dominos körfuboltakvöldinu sem er alltaf hollt og gott fyrir þjálfara”

“Það er svo náttúrulega ekkert laununga mál að það gladdi mig mikið að sjá mína menn halda sigurgöngunni áfram. Það í raun var síðasta staðfestingin á að ég tók rétta ákvörðun eftir tímabilið fyrir ári síðan”

Fyrir utan frábæra innkomu í Körfuboltakvöldi, hvað hefur þú verið að gera síðasta árið? Hvað gerir svona frí frá meistaraflokkinum fyrir huga þjálfarans?

“Ég settist á skólabekk aftur eftir þó nokkra langa pásu og stunda nám við Háskólann í Bifröst í fjarnámi. Það er eitthvað sem ég hef stefnt á lengi en alltaf sett körfuboltann í fyrsta sæti. Auk þess er ég að hjálpa Valsmönnum að byggja upp sitt yngri flokka starf sem hefur gengið vel og svo er ég í mikilli stefnumótunar vinnu hjá KKÍ við skipulagningu og uppsetningu á landsliðstarfinu okkar með það markmið að gera gott starf ennþá betra”

“Ég hef líka fundið að það hversu hollt og gott það er að geta stigið frá stressinu og spennunni í smá tíma. Þetta voru fimm löng og frábær ár hjá KR með meistaraflokknum en ekki síður búið að vera gríðarlega lærdómsrík sumur þar sem landsliðin, bæði A og U20 hafa tekið mikinn tíma. Núna í ár hefur loksins myndast tómarúm í hausnum til þess að leyfa mér að reflecta og meta þessa ár og nýta þau til að bæta mig sem þjálfara”

Hvað hafa mörg lið reynt að ráða þig síðan að þú hættir? Hefur eitthvað þeirra verið nálægt því? 

“Já það var slatti sem hafði samband enda mörg lið sem skiptu um þjálfara í vor en svo komu líka fyrirspurnir úr óvæntum áttum. Það er gaman að heyra og sjá metnaðinn hjá liðunum fyrir starfinu sínu og heiður að hafa verið hugsaður sem kostur hjá þeim. Það var eitt lið sem fékk mig til að hugsa þetta vel en á endanum þá líður mér þannig að mig langar að leyfa hungrinu að aukast ögn meira áður en ég tek slaginn aftur, ef ég tek hann aftur”

Aðeins að deildinni, hvað kom þér mest á óvart í vetur?

“Það var heill heillingur. Framganga ÍR-inga í úrslitakeppninni stendur auðvitað uppúr. Ótrúleg þrautseigja þeirra og hugarfar sem geislaði frá þeim. Að spila 15 leiki, að fara í þrjá oddaleiki er auðvitað lygilegt og sögulegt. Þá var frammistaða Þórs í deildinni áhugaverð, hvernig þeir náðu að snúa við taflinu eftir erfiða byrjun. Þá komu sveiflurnar í frammistöðum liðanna mér á óvart í allan vetur. Fá lið sem náðu þessum stöðugleika yfir allt tímabilið og inní úrslitakeppnina”

“Lið eins og Stjarnan, Njarðvík og Tindastóll sem sýndu af sér frábærar hliðar megnið af vetrinum, ná ekki að fylgja því eftir og sýndu óvænta veikleika í úrslitakeppninni.  Annars voru margir þjálfarar og mörg lið að gera bara mjög vel og heilt yfir frábært körfuboltatímabil að baki”

Finnur í leik með Val í vetur, þar sem hann hljóp í skarðið fyrir Darra Frey Atlason, sem var í banni

Hvaða áhrif fannst þér fleiri evrópskir leikmenn hafa á deildina? Hvernig sérðu þessa þróun fyrir þér á næsta tímabili og inn í framtíðina?

“Það komu margir virkilega skemmtilegir leikmenn inní deildina með opnun á bosman reglunni aftur. Auðvitað komu líka leikmenn sem heilluðu ekki en ég held að það sé eðlilegt þar sem liðin voru að renna nokkuð blint í sjóinn svona á fyrsta árinu. Núna eru nokkrir leikmenn búnir að sanna sig hérna og því vita menn meira að hverju þeir ganga. Svo tekur það auðvitað tíma fyrir liðin að aðlaga sig að öðruvísi týpum af leikmönnum”

“Evrópustrákarnir eru ekki einsog bandaríkjamennirnir og þeirra hlutverk og styrkleikar liggja oft á öðrum sviðum en endilega að skora boltanum. Sviðum sem eru ekkert síður mikilvæg til að vinna leiki. Helstu vankantarnir í vetur fannst mér að það voru fullmargir svona „one-way“ leikmenn, þ.e.a.s. leikmenn svo voru góðir á öðrum enda vallarins en slakir eða áhugalausir á hinum endanum”

Heldur þú að þetta muni hafa góð eða slæm áhrif á getu íslenskra leikmanna?

“Ég held að ef rétt er haldið að spöðunum þá verður þessi þróun góð fyrir íslensku leikmennina. Auðvitað fækkar mínútum fyrir íslensku leikmennina, en mínútur í meistaraflokk er ekki eitthvað sem á að taka sem sjálfsögðum hlut. Þetta á að hvetja leikmenn til að leggja harðar að sér, æfa meira og lengra yfir almanaksárið. Við þurfum að fá fleiri leikmenn út í atvinnumennsku og það gerist ekki nema að menn æfi meira og markvissara”

“Leikmenn þurfa að mæta hindrunum á leiðinni til þess að bæta sig. Stökkið úr yngri flokkunum uppí meistaraflokkinn er stórt og verður ekki tekið á stuttum tíma nema í einstaka tilfellum. Til dæmis má nefna þá félaga Martin Hermanns og Matta Sig, þeir skiptust á að vera 12. maðurinn í Íslandsmeistaraliði KR árið 2011, þá 17 ára gamlir. Martin byrjar svo á bekknum hjá mér í fyrsta leik 2013/2014 tímabilið. Það eru þeir leikmenn sem sýna þolinmæði, vinnusemi og rétt hugarfar sem munu komast í gegn, þannig leikmenn ná líka árangri”

“Það sem hefði mátt hinsvegar fylgja breytingunni á bosman reglunni er endurskoðun á unglingastarfinu okkar fyrir leikmenn á aldrinum 16-20 ára. Með fjölgun erlendra leikmanna munu íslensku leikmennirnir fara aðeins seinna uppí meistaraflokkinn sem er jákvætt því þá geta þeir eytt meiri tíma í grunnþjálfunina sem unglingaþjálfunin á að snúast um. Hins vegar þarf þá unglingaþjálfunin og starfið að vera bæði öflugt og heillandi til þess að hugur leikmanna fari ekki of fljótt uppí meistaraflokkinn”

Eðlilegt við spyrjum út í framtíðina, ert þú eitthvað búin að ákveða hvort þú sért að fara að, eða sért opinn fyrir að taka að þér lið á næstunni?

“Eins og staðan er í dag þá er ég að minnsta kosti ekki að fara inní meistaraflokksþjálfun, enda gaf ég öllum liðunum afsvar sem höfðu samband. Það er nóg að gera hjá mér í þeim verkefnum sem ég er í nú þegar, en það er aldrei að vita hvað maður gerir ef eitthvað spennandi kemur upp. Þangað til ætla ég að leyfa mér að njóta mín aðeins í þessu status quo-i sem ég er í og gefa öðrum hlutum í lífinu aukið vægi”