Haukar tilkynntu um það fyrr í dag að Emil Barja hefði gengið til liðs við félagið að nýju, eftir ársdvöl hjá KR.

Emil, sem er 28 ára bakvörður, er vel kunnugur staðháttum í Hafnarfirði enda hefur hann leikið með Haukum allan sinn feril utan síðasta tímabils, þegar hann hjálpaði KR-ingum að vinna sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð. Auk þess að leika með Haukum í Domino’s deildinni mun Emil einnig taka að sér stöðu yfirþjálfara yngri flokka félagsins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Hauka.