Körfuboltabúðir Brynjars Þórs hafa heldur betur getið sér gott orð síðustu árin en útbreiðsla verkefnisins hefur verið nokkur en auk þess að vera í DHL-höllinni fylgdi verkefnið honum til Sauðárkróks svo eitthvað sé nefnt. Nú á að bæta heldur betur í.

Dagana 3. – 7. júní ætlar Brynjar að skella sér austur á firði og bjóða upp á körfuboltabúðir fyrir unga jafnt sem aldna. Á Facebook síðu sinni segir Brynjar meðal annars: „Mig hefur lengi langað að fara með körfuboltabúðir út á land og bera hróður körfuboltans enn víðar.“

„Fyrstu þrír staðirnir verða Egilsstaðir, Neskaupstaður og Höfn á Hornafirði en körfuboltinn hefur verið í mikilli sókn á þessum stöðum á síðastliðnum árum og eru meðal annars Höttur og Sindri í fyrstu deildinni í körfubolta.
Seinna í sumar fer ég svo í Búðardal og Patreksfjörð en það verður auglýst seinna.“

Búðirnar fara fram á Egilsstöðum og Neskaupstað dagana 3. – 5. júní. Æfingarnar á Egilsstöðum munu vera frá klukkan 9:00-11:30 og á Neskaupstað frá klukkan 15:30-18:00. Þær eru fyrir stráka og stelpur á aldrinum 9-16 ára.

Einnig verða æfingar á Hornafirði 6. og 7. júní frá klukkan 9:00 -11:30 og þar verð ég einnig með kvöldæfingar fyrir fullorðna.

Verkefnið byrjaði allt með hinum sívinsælu skotbúðum Brynjars fyrir fullorðna en hann mun að sjálfsögðu bjóða uppá kvöldæfingar fyrir áhugasama á þessu ferðalagi sínu. Á Neskaupstað verða kvöldæfingar fyrir fullorðna mánudaginn 3. júní og miðvikudaginn 5. júní klukkan 18:00. Sama verður uppá teningnum á Hornafirði 6. og 7. júní frá klukkan 18-19.

Þess má geta að þessa dagana eru námskeið einnig í boði í Reykjavík og á Sauðárkróki.

Tækifæri sem engin körfuboltaunnandi má láta framhjá sér fara. Ungir geta bætt sig enda er sumarið tími bætinga.

Skráning fer fram hér: https://forms.gle/TV3wTshCwp7Woc1s8. Nánari upplýsingar má finna hér.