Í kvöld mætti Valur í Frostaskjól í fjórða leik undanúrslita kvenna þar sem sigur myndi tryggja þeim áfram í úrslit. KR átti tækifæri á því að tryggja sér oddaleik, en svo fór ekki. Valur tók forystuna strax í upphafi leiks og lét hana aldrei frá sér, KR jafnaði leikinn nokkrum sinnum en komst aldrei yfir. Útlitið strax frá upphafi benti til þess að Valur færi með sigur af hólmi en eftir góðan endasprett KR hefði allt geta gerst.

KR-ingar virtust daufar og ekki tilbúnar í baráttuna, en héldu samt sem áður í við Val allan tímann. Er Valur tók áhlaup var KR ávallt tilbúnar að svara fyrir sig. Bæði lið voru að spila frábæra vörn og sýndu einnig góða takta í sókninni. Orla var áberandi fyrir KR-inga, var allt í öllu jafnt og Helena fyrir Valsara. Valur leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhlutann.

Annar leikhluti byrjaði af krafti, KR virtist vera að vakna til lífs og jafnaði leikinn, Valskonur voru ekki lengi að svara fyrir sig. Hægt og rólega fóru Valsarar að síga fram úr með vel spiluðum sóknarleik er þær tóku 2:12 áhlaup. Það var ekki fyrr en á sjöttu mínútu annars leikhluta að KR fór að sýna smá lit en Valskonur voru duglegar að svara fyrir sig. Staðan í hálfleik því 36:43.

Þriðji leikhluti einkenndist af miklum hraða, með hraða fylgir oft mislukkaðar sendingar og tapaðir boltar. En samt sem áður voru bæði lið að skiptast á að skora, bara mismikið. Valur var alltaf skrefi á undan og náði að auka forystuna í 12 stig og verkefni KR-inga varð erfiðara með hverri mínútu sem leið.

Hver veit hvað Benni sagði milli leikhluta því KR-ingar voru langt frá því að vera hættar og byrjuðu fjórða leikhluta á 11:0 áhlaupi á aðeins tveimur mínútum og fimm sekúndum. Þá var Finni nóg boðið og tók leikhlé, en Finnur stóð í stað Darra sem var í eins leiks banni eftir síðasta leik. Mikil spenna ríkti á meðal áhorfenda sem voru farnir að hrópa hærra af pöllunum. Valskonur komu einbeittar aftur til leiks og sóttu sterkt að körfunni.

Það var allt í járnum og leikmenn beggja liða óhræddir að fórna sér fyrir lausa bolta, en það var eftir tæpar þrjár mínútur þegar Orla O’Reilly og Bergþóra skullu fast saman. Útlitið ekki gott og sjúkraþjálfarar hlupu inn á völlinn, Bergþóra stóð hratt upp og virtist vera í fínu standi, hins vegar lág Orla eftir og hélt um höfuðið. Orla spilaði ekki meira fyrir KR-inga og var það svakalegur missir.

Leikurinn var þó enn hnífjafn og hefði vel getað dottið báðu megin, en Valskonur gerðu vel að halda yfirvegun. Hallveig átti mikilvægan þrist undir lokin sem reif upp stemminguna Vals megin, má segja að þessi þristur hefði verið það sem Valsarar þurftu til þess að landa sigrinum. Leikurinn endaði aðeins í þriggja stiga mun eftir þvílíkan fjórða leikhluta.

Tölfræðin er stórkostleg, bæði lið setja 30 skot af 71, Valur fer hins vegar oftar á vítalínuna og með hærri nýtingu þar. Valur tekur einungis tveimur fleiri fráköstum, en gefur fimm fleiri stoðsendingar. KR tapar einum fleiri boltum og stelur tveimur færri en Valur. Það er ótrúlegt hversu lítill munur er á milli liða tölfræðilega séð.

Bæði Helena og Heather Butler eru illviðráðanlegar, þær deila 50 stigum af 84, gefa 14 af 23 stoðsendingum, og deila 53 framlags punktum (Helena 31, Butler 22) fá þær því titilinn hetjur leiksins.

Valur heldur því áfram í úrslit þar sem þær muna mæta annað hvort Keflavík eða Stjörnunni en þau úrslit munu ráðast í Keflavík næstkomandi miðvikudag. Ljóst er að gífurleg spenna er framundan þar sem allt getur gerst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Umfjöllun / Regína Ösp

Myndir / Guðlaugur Ottesen

Viðtal / Ólafur Þór