Keflavík tók á móti Val í leik 2 í úrslitum Dominos úrvalsdeild kvenna í kvöld. Valur vann fyrsta leik liðanna nokkuð öruggt með 12 stigum á Hlíðarenda. Salbjörg Ragna Sævarsdóttir byrjunarliðsmaður í liði Keflavíkur tók þátt í upphitun í kvöld en var ekki orðin nógu góð af meiðslum sem hún varð fyrir í fyrstu viðureign liðanna og tók því ekki þátt í leiknum.

Gangur leiksins:

Keflavík setti fyrstu stigin, liðin skiptust svo á körfum fyrstu mínúturnar. Leikhlutinn var laus við mikla varnartilburði en jafnt var með liðunum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 25 – 27.

Keflavík náðu strax forystunni og þær héldu henni vel. Valur sleppti þeim þó aldrei langt frá sér og forysta Keflavíkur varð mest 9 stig þegar um tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum, en þá skoraði Valur 8 stig í röð. Staðan í hálfleik 53 – 50.

Helena Sverrisdóttir með 20 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar fyrir gestina og hjá Keflavík var Brittanny Dinkins með 16 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar í fyrstu tveim leikhlutunum.

Keflavík byrjaði þriðja leikhluta aðeins betur og juku aðeins við forystuna. Það mátti sjá á leik beggja liða að það var eitthvað rætt um varnarleik í hálfleik. Staðan fyrir fjórða leikhluta 76 – 69.

Valur byrjaði fjórða leikhluta með látum og setti fyrstu 7 stiginn og jöfnuðu leikinn 76 – 76. Gestirnir héldu áfram og voru komnar með 9 stiga forystu um miðbik leikhlutans. Keflavík hertu vörnina hjá sér og komu forystu Vals niður í 2 stig þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Keflavík fékk tvær tilraunir til að jafna leikinn, en það var Valur sem skoraði næstu körfu. Lokatölur 96 – 100.

Byrjunarlið:
                        Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Emilía Ósk Gunnarsdóttir, Brittanny Dinkins og Birna Valgerður Benónýsdóttir.
                        Valur: Guðbjörg Sverrisdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Heather Butler og Helena Sverrisdóttir.

Tölfræðin lýgur ekki:

Bæði lið hittu gríðarlega vel en Valur vann frákastabaráttuna örugglega og áttu 14 fleiri skot á körfuna en Keflavík.

Hetjan:

Brittanny Dinkins var frábær í kvöld, hún setti 39 stig, tók 8 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og var með 46 framlagspunkta. Sara Rún og Birna Valgerður áttu einnig fínan leik og Þóranna Kika átti fína innkomu af bekknum.

Helena Sverrisdóttir átti stórleik, setti 35 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. 42 framlagspunktar hjá Helenu í kvöld. Guðbjörg Sverrisdóttir, Simona Podesvova og Heather Butler áttu allar góðan leik.

Kjarninn:

Bæði lið voru að spila frábæran sóknarbolta en varnarleikurinn var mest allan leikinn ekki upp á marga fiska. Bæði lið voru að hitta mjög vel en það var Keflavík sem tapaði þessum leik eftir að hafa leitt meirihluta leiksins. Það er ljóst að ef Keflavík ætlar að ná sér í sigur gegn gríðarlega sterku liði Vals þurfa þær að spila betri vörn og vera tilbúnar til að klára leikinn. Að sama skapi sýndi Valur mikinn karakter að hleypa Keflavík aldrei of langt frá sér og eiga frábærann lokasprett.

Tölfræði

Myndasafn

Viðtöl: