Íslandsmeistarar Vals fengu Víkinga í heimsókn í fyrsta leik Pepsi-deildarinnar í tuðrusparki……djók, hverjum er ekki sama?!

Fimmfaldir Íslandsmeistarar KR-inga mættu hins vegar í Hertz-helli ÍR-inga í kvöld og allir landsmenn sem eitthvað vit hafa á íþróttum hafa ekki komið niður matarbita í allan dag af spennu! Það voru þrjú lögleg bílastæði laus í Breiðholti tveimur tímum fyrir leik og undirritaður lagði í eitt þeirra. ÍR-ingar höfðu fengið flestalla stóla hverfisins lánaða fyrir leikinn og góðum klukkutíma fyrir leik voru þeir allir í notkun auk stúkunnar. En hvað leikinn varðar þurftu meistararnir allmikið á sigri að halda, jafnvel þó svo að úrslitakeppnin í ár bendi til þess að það sé hreinlega þægilegt að lenda 0-2 undir í einvígi…

Spádómskúlan

Kúlan er yfirfull af spilltri rómantík þessa dagana. Það væri eins og að baða sig upp úr dögginni í morgunsólinni komist ÍR-liðið í 2-0 í einvíginu (sorry KR en kúlunni er alveg sama hvað ykkur finnst!). Af þeim sökum beitir hún öllum spillingarbrögðum sem hún kann til að svo megi verða og varpar fram ,,jinx-spá“. KR pakkar þessum leik léttilega, 75-93.

Byrjunarlið:
ÍR: Robinson, Siggi, Fissi Kalli, Matti, Capers
KR: Kristó, Boyd, Jón, Pavel, Di Nunno

Gangur leiksins
Það kom ekkert á óvart að stigaskorið var ekkert að sprengja töfluna í byrjun. Lengi vel var staðan 4-2 og Fissi Kalli brá á það ráð að gefa stórglæsilega spjaldið-stoðsendingu á Sigga en það er alveg glænýtt og glæsilegt trikk hjá fyrirliðanum. Um miðjan leikhlutann tróð Boyd sínum mönnum á ágætan sprett og gestirnir leiddu 15-21 að honum loknum. Hefðbundið basl var á sóknarleik heimamanna en það hefur bara ekki komið að sök í heildarmyndinni í vetur.

ÍR-ingar voru líkari sjálfum sér varnarlega í öðrum leikhluta en að þeirra mati er alltof mikið að fá á sig 21 stig í einum leikhluta! Að vísu voru KR-ingar sjálfum sér verstir á köflum í leikhlutanum og komu aðeins 10 stigum á töfluna. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum var staðan 29-29 en tveir þristar frá Fissa Kalla annars vegar og Capers hins vegar gerði það að verkum að Gettóarnir og aðrir ÍR-ingar fóru glaðbeittir út í kælingu í stöðunni 31-37.

Ingi Þór hefur haldið flotta ræðu í hálfleik því KR-ingar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks. Að tveimur mínútum liðnum urðu þeir þó fyrir umtalsverðu áfalli þegar Geitin sjálf yfirgaf völlinn kvalinn vegna axlarmeiðsla. Eins og frasinn segir brýtur svona lagað lið niður eða blæs því byr í brjóst og það síðarnefnda varð niðurstaðan í þessu tilviki. Ítalski seiðskrattinn jafnaði leikinn með tveimur glæsilegum þristum í 42-42 og Boyd kom KR yfir í 46-50 skömmu síðar með enn einum þristinum. Þrátt fyrir leikhlé hjá Borche syrti enn í álinn hjá heimamönnum og gestirnir leiddu 51-63 eftir þrjá leikhluta.

ÍR-ingar væru ekki komnir í úrslit myndu þeir gefast upp strax og á móti blæsi. En því miður varð fjórði leikhluti aldrei spennandi. Daði minnkaði muninn í 10 stig með spjaldið ofaní þristi en fylgdi því eftir með því að láta reka sig í sturtu og gaf Di Nunno stigin þrjú til baka á vítalínunni. Í framhaldinu áttu KR-ingar lengstu sókn leiksins þar sem þeir tóku hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og settu að lokum þrist. Þá var staðan 57-73 og tæpar 6 mínútur eftir. Það er umtalsverður tími en samt ljóst að ÍR-ingar þyrftu að troða sér umtalsvert í Öskubuskuskóinn ef vel ætti að fara. Það gekk ekki eftir og gestirnir lönduðu nokkuð öruggum 73-86 sigri að lokum.

Maður leiksins
Julian Boyd var frábær í þessum leik og nýtti sér vel þann styrk og þá hæfileika sem hann býr yfir. Hann lauk leik með 28 stig og 9 fráköst.

Kjarninn
KR-ingar eru með afar góðan hóp leikmanna eins og allir vita og ekki vantar sigurhefðina. Þeir sem héldu að Öskubuska myndi ekki lenda í neinum hindrunum gegn þeim hafa ekki lesið ævintýrin góðu mjög gaumgæfilega. Ingi hefur undirbúið liðið vel fyrir leikinn og hæð og styrkur liðsins var vel nýttur í kvöld. Þá er gjarnan stutt í opið þriggja stiga skot og þau voru allnokkur opinn sem vildu ekki niður í kvöld þrátt fyrir sigur. KR-ingar geta með góðum rökum verið bjartsýnir á framhaldið því Ingi ætlar ekki að tapa fleiri leikjum á heimavelli í vetur.

ÍR-ingar hafa einfaldlega sannað sig í vetur. Liðið hefur ástríðu, trú og frábæran þjálfara. Já, og góða leikmenn þó svo að lið ÍR sé kannski ekki jafn sterkt á pappírunum og sum önnur. Enn og aftur minnir undirritaður á að liðið vann Njarðvík og Stjörnuna í oddaleik á útivelli á dögunum svo við getum öll vonast til þess að helgin verði fljót að líða, aldrei slíku vant…

Tölfræði leiks

Myndasafn #1 (Þorsteinn Eyþórsson)

Myndasafn #2 (Bjarni Antonsson)

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson

Myndir / Þorsteinn og Bjarni