KR vann ÍR í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla, 86-73.

Staðan því jöfn í einvíginu, 1-1, en það lið sem vinnur fyrst þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Næst leika liðin komandi mánudagskvöld í DHL höllinni í Vesturbæ.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við leikstjórnanda ÍR, Matthías Orra Sigurðarson, eftir leik í Hellinum.

Matti átti góðan leik í kvöld en það dugði skammt að þessu sinni:

Ég gerði mitt, ég reyndi að jinxa þetta með því að spá KR sigri…

Já, þú hefur reynt þitt besta..

…en hvað klikkaði hjá ykkur?

Varnarleikurinn í þriðja leikhluta, hann var hræðilegur. Þeir skora 32 stig sem er bara ekki boðlegt á heimavelli, og það í lokaúrslitum. Þannig að við þurfum að finna lausnir á því, við þurfum að sjá hvað við vorum ekki að gera vel í þeim leikhluta. Ég hef engar áhyggjur af því, við kíkjum bara á leikinn og Borche og Árni segja okkur hvað er að gerast og við lögum þetta.

Mér fannst KR-liðið nýta sér vel á löngum köflum hæð og styrk í þessum leik…

Já það gæti vel verið, ég skal þó ekki segja svona strax eftir leik. Þeir eiga nú ekkert að vera eitthvað mikið stærri en við oft á tíðum og við eigum að geta dekkað þá betur einn á einn. Við þurfum vissulega að stoppa Boyd, hann var alltof góður í dag!

Hann var rosalegur. En þið greinið þetta bara og mætið ferskir á mánudag. Ég ætla ekki að spyrja eins og fífl aftur hvort þið hafið trú á þessu! Þið farið væntanlega bara í alla leiki til að vinna og svo kemur uppskeran í ljós.

Jájá þetta er ekkert mikið flóknara en það, þetta eru bara tvær körfur og einn bolti og svo er bara mikil orka inn á vellinum og gleði og svo bara dettur þetta öðru hvoru megin. Við megum ekki við því að detta niður í svona langan tíma eins og við gerðum í þriðja leikhluta, það má ekki vera mikið meira en 1-2 mínútur…við þurfum líka að vera smart sóknarlega þegar vörnin er ekki alveg að klikka hjá okkur, þá þurfum við að fá góð skot sóknarlega. Sóknarlega vorum við ekki heldur nógu góðir í dag og við þurfum að finna lausnir á því hvernig við getum hreyft boltann betur og nýtt okkur bæði Gerald og Sigga.

Við þurfum að halda áfram að hafa gaman af þessu, er það ekki? Er það ekki lykill að árangri?

Jújú, þegar maður horfir á þetta svona utanaðkomandi þá ætti þetta að vera það skemmtilegasta sem körfuboltamaður getur gert, að fá að spila, það eru bara forréttindi að fá að spila fyrir framan allt þetta fólk og í þessari stemmningu.

Já, það hefur verið talað um það hvað þú hefur verið áberandi léttur og kátur undanfarið – það er um að gera að halda því áfram er það ekki?

Jújú! Við finnum einhverja gleði, við förum og hendum á okkur einhverju helíum og það verða bara allir skellihlæjandi á mánudaginn. Við verðum tilbúnir á mánudaginn, við ætlum að fara og vinna í DHL-höllinni aftur!

Það verður áfram bara geðveikt fjör!

Já, heldur betur!

Viðtal / Kári Viðarsson