KR tekur á móti ÍR í kvöld í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna í Dominos deild karla.

ÍR vann fyrsta leik liðanna í Vesturbænum í síðustu vikuáður en KR jafnaði svo metin í Breiðholtinu síðastliðinn föstudag.

Sá sigur var hinsvegar ekki alveg ókeypis fyrir KR, sem misstu bakvörðinn Jón Arnór Stefánsson af velli í seinni hálfleiknum eftir að öxl hans lenti í samstuði við leikmann ÍR, Gerald Robinson.

Samkvæmt þjálfara KR, Inga Þór Steinþórssyni, verður Jón metinn aftur fyrir leik kvöldsins og segir hann þeirra bestu menn vera að gera allt sem þeir geti til þess að Jón nái að vera með.

Segir þjálfarinn ennfrekar að Jón sjálfur sé að gera allt til þess að geta verið með í þriðja leiknum og að hann sé mikill stríðsmaður, en ástand hans sé hinsvegar bara metið frá degi til dags.