Rétt eins og í Dominos deildinni þá er úrslitakeppnin í sænsku úrvalsdeildinni í fullum gangi og undanúrslitaeinvígin þar ytra komin vel á veg.

Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås basket eru komnir vel á veg með að tryggja sæti í úrslitaeinvíginu í Svíþjóð. Liðið mætir Norrköping í undanúrslitaeinvíginu en Borås komst í 3-1 stöðu með sigri í fyrradag. Sigra þarf fjóra leiki til að vinna einvígið.

Borås gjörsamlega valtaði yfir leik fjögur sem fór fram á heimavelli Norköpping. Leiknum lauk með 65-108 sigri Borås. Jakob spilaði 18 mínútur og skilaði þremur stigum.

Það er því ansi líklegt að þeir bræður verði báðir í úrslitaseríum í sinni deild en bróðir Jakobs er Matthías Orri leikstjórnandi ÍR sem er komið í úrslitaseríu Dominos deildar karla.