KR vann ÍR í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla, 86-73.

Staðan því jöfn í einvíginu, 1-1, en það lið sem vinnur fyrst þrjá leiki verður Íslandsmeistari.

Næst leika liðin komandi mánudagskvöld í DHL höllinni í Vesturbæ.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara KR, Inga Þór Steinþórsson, eftir leik í Hellinum.

Ingi Þór var afar ánægður með sitt lið eftir þennan mikilvæga sigur:

Mér fannst þið nýta hæð ykkar og styrk vel í þessum leik…

Jájá, það var kraftur í mönnum og þá nýta þeir sentimetrana – en þegar menn eru linir og litlir í sér þá skiptir engu máli hvort þú ert stór og sterkur eða ekki.

Já vissulega, en mér fannst þetta vera svolítið planið hjá ykkur og að það hafi verið leið 1 og 2 að fara á póstinn, eða er það bull hjá mér?

Neinei, okkar leikur snýst um jafnvægi. Þriðji leikhluti var gríðarlega vel spilaður og við fengum loksins skotin til að detta fyrir okkur líka. Mike sneri leiknum fyrir okkur með tveimur þristum í röð og jafnaði leikinn (í 42-42), mér fannst það vera viðsnúningspunktur í leiknum. Við fengum mikið sjálfstraust upp úr þeim skotum, svona skot geta hreinlega breytt rytmanum í leiknum.

Já og talandi um rytma, þið voruð í fínum rytma í kvöld og þegar andstæðingurinn er í basli að verjast undir körfunni þá opnast frekar eitthvað fyrir utan…

Já, það var margt sem var til fyrirmyndar hjá okkur í dag og menn eiga hrós skilið. Við missum okkar aðalmann út, hundleiðinlegt að sjá það og það vill enginn sjá meiðsli í úrslitakeppninni. En því miður gerðist það, vonandi náum við að bjarga honum svo hann verði með á mánudag en ég hef ekki hugmynd um hvernig staðan á honum er. En mér fannst bara allt liðið stíga upp í heild sinni eftir þetta atvik.

Já mikið rétt…og Boyd var mjög góður í þessum leik…

Já þetta er sá Julian Boyd sem við réðum til okkar, ekki sá sem spilaði í leik eitt.

Auðvitað þarf KR eins og önnur lið að fá í það minnsta þokkalegt framlag frá Kananum sínum…

Við þurfum að fá framlag frá heildinni og hann er bara einn af heildinni. Hann er alveg gríðarlega hæfileikaríkur þessi gæi og hann sýndi það bara í dag hversu mikilvægur hann er.

Nákvæmlega. Frábær leikur hjá ykkur og þið búnir að jafna einvígið. Er KR eitthvað að fara að tapa aftur í Vesturbænum?

Við höfum engan áhuga á því! En til þess að það gerist ekki þá þurfum við að fá gersamlega fulla DHL-höll og ég set bara kröfu á KR-inga, á mánudagskvöldið 29. apríl þá er kvöld KR-inga í DHL-höllinni og ég vil sjá hana stútfulla!

Viðtal / Kári Viðarsson