KR og Þór Þorlákshöfn mættust í kvöld í DHL-höllinni. Þetta var fyrsta viðureign liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar og það var vel mætt í Frostaskjólið, enda búist við hörkuleik. Fimmfaldir Íslandsmeistarar KR tóku 1-0 forystu eftir æsispennandi leik þar sem Þórsarar sprungu aðeins á limminu á lokamínútunum, 98-91.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði með látum og fæstar sóknir voru lengri en fjórtán sekúndur. KR voru mikið að vinna með vegg og veltu og fengu ýmist opna þrista fyrir Mike Di Nunno eða auðveld sniðskot fyrir Kristófer Acox. Á hinum enda vallarins var boltahreyfing Þórs annað hvort frábær eða hörmuleg, enda voru þeir með sex tapaða bolta á fyrstu tíu mínútunum á sama tíma og þeir fengu auðveldar körfur innan teigs sem utan. Staðan var nokkuð jöfn eftir fyrsta leikhlutann, 31-27.

KR-ingar tóku ágætt áhlaup í byrjun annars leikhlutans og skoruðu átján stig gegn fjórum stigum hjá Þór á fyrstu fimm mínútunum. Lærisveinar Baldur Þórs þjálfara héldu hins vegar haus og gátu með hörku og góðu framlagi frá Kinu Rochford klórað sig til baka. Skotin, sem höfðu verið að detta fyrir KR fyrstu fimmtán mínúturnar voru ekki að detta jafn vel fram að hálfleik. Áhlaupið á undan hafði hins vegar gefið þeim nægilega mikið andrými svo að þeir höfðu níu stiga forystu við lok fyrri hálfleiks, 57-48. Kinu hafði verið kræfur fyrstu tuttugu mínúturnar og skoraði 24 stig, helming stiga gestanna! Mike hafði skorað átján stig fyrir KR og Pavel Ermolinskij hafði gefið átta stoðsendingar! Það stefndi í þvílíkan seinni hálfleik!

Liðin byrjuðu á rólegu nótunum í seinni hálfleik og voru að gera mikið af mistökum enda gekk illa að halda uppteknum hætti í stigaskori. Þórsarar, sem voru að vinna með aðeins grynnri bekk en KR, komust fljótlega í villuvandræði í þriðja leikhluta. Ragnar Örn Bragason hafði aðeins fengið eina villu í fyrri hálfleik en á þriðju mínútu þriðja leikhluta fékk hann dæmdar á sig þrjár villur á tíu sekúndum og settist því á bekkinn. Eftir því sem á leið fékk Kinu líka sína fjórðu og var skipt út af og útlit fyrir að KR-ingar myndu nýta tækifærið og stíga á hálsinn á Þórsmönnum.

Það sem gerðist hins vegar var að Þór þjappaði sig saman og fóru að minnka muninn! Þristunum fór að rigna eftir að Kinu settist á bekkinn og Þórsarar komust nær og nær KR-ingum. Það skipti ekki einu sinni máli þó að Brodnik hafi líka þurft að setjast á bekkinn með sína fjórðu villu með tvær mínútur eftir, áfram hélt áhlaupið. Emil Karel Einarsson setti þrist til jafna stöðuna á seinustu mínútunni og á lokasekúndum leikhlutans eftir fát í hraðaupphlaupi setti Nikolas Tomsick annan þrist til að koma gestunum yfir fyrir lokaleikhlutann. Gestirnir höfðu skorað sautján stig án Kinu inn á og KR hafði aðeins skorað tíu stig á sama tíma. Staðan 74-77 með tíu mínútur eftir! Það vakti athygli að Kinu og Mike, sem höfðu báðir gengið berserksgang í fyrri hálfleik, skoruðu samtals tvö stig í þriðja leikhluta þar sem Kinu hafði sett sniðskot eftir sóknarfrákast en Mike ekki skorað körfu.

Þór Þorlákshöfn voru fljótir að fá nokkrar villur á sig í fjórða og Nikolas fékk meðal annars á sig óíþróttamannslega á fyrstu mínútum leikhlutans. KR-ingar nýttu tækifærið og jöfnuðu stigaskorið þrátt fyrir tvö hetjulega þrista frá Emil Karel á sama tíma til að halda heimamönnum frá. Kinu Rochford kom inn á eftir nokkrar mínútur en var ekki búin að spila í tvær mínútur áður en hann þurfti að setjast endanlega á bekkinn með fimmtu villuna sína. Þórsarar héldu áfram í við KR í stigaskori en gátu ekki fengið skotin til að detta seinustu mínúturnar og því fór sem fór. 98-91 sigur hjá KR í fyrstu viðureign liðanna.

Hverjir voru góðir?

Mike Di Nunno var sjóðheitur í fyrri hálfleik; setti fyrstu fjóra þristana sína niður og skoraði 18 stig. Hann lauk leik með 26 stig og var 6/12 í þriggja stiga skotum. Kristófer Acox og Julian Boyd voru báðir frábærir og spegluðu hvern annan ansi laglega; þeir voru með sitt hvor 17 stigin, tóku báðir 11 fráköst og vörðu sitt hvort skotið.

Hjá Þór var Kinu Rochford erfiður viðureignar með 26 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar. Hann var með 10/13 í skotum inni í teig og setti öll sex vítaskotin sín. Halldór Garðar Hermannsson var með góðan leik, þréttán stig, átta fráköst og sex stoðsendingar. Emil Karel Einarsson var líka frábær fyrir gestina með sautján stig, sjö fráköst og 4/8 í þriggja stiga skotum.

Vendipunkturinn

Leikurinn breyttist eftir að Kinu fékk sína fimmtu villu í fjórða leikhlutanum, sem var sóknarvilla eftir að hann keyrði niður Pavel Ermolinskij inni í teig Þórsara. Eftir þetta gengu Julian Boyd og fleiri á lagið og gerðu út um leikinn á seinustu fimm mínútunum með því að skora tíu stig fyrir KR gegn tveimur stigum hjá Þór.

Þór höfðu í þriðja leikhluta misst Kinu út af með fjórar villur en höfðu þá bensín á tanknum til að skora áfram og taka forystuna. Það virtist sem að Þórsarar voru hreinlega búnir á því með fimm mínútur til leiksloka.

Kjarninn

Breidd KR gerði út um þessa fyrstu viðureign liðanna en áhorfendum var boðið upp á ótrúlega flottan og spennandi leik. Það hefði ekki komið neinum á óvart ef að Þór Þorlákshöfn hefði sýnt aðra eins frammistöðu á lokametrum þess leiks eins og þeir gerðu á lokamínútum fimmta leiks þeirra við Tindastól í seinustu seríu.

Þá eru KR-ingar komnir með 1-0 forystu en Þór Þorlákshöfn þurfa ekki að örvænta. Þórsarar voru nokkrum körfum frá því að stela heimavallarréttinum og fá núna góða hvíld fyrir næsta leik sem verður spilaður í Þorlákshöfn næstkomandi þriðjudag (9. apríl) kl.19:15. Miðað við þennan fyrsta leik er ljóst að engin vill missa af þessari seríu!

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leik:

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Davíð Eldur Baldursson