Hlynur Bæringsson ætlar að verða Íslandsmeistari en lið hans Stjarnan knúði fram oddaleik í undanúrslitum Dominos deildar karla:

Hvernig undirbjugguð þið ykkur fyrir þennan leik, svona ef við byrjum þar?

Við vorum með örlitlar taktískar breytingar, eitthvað smávegis. Við reyndum að hraða upp leiknum, þannig erum við bestir. ÍR hefur fram að þessu bara svolítið fært línuna, þ.e. varðandi hvernig leikurinn er spilaður. Borche á mikið hrós skilið fyrir það að hafa fært leikinn í einhvern 90‘s bolta. Við reyndum að mæta þeim hraðar og komast í flæði sóknarlega og geta sótt hratt á þá. Um leið og við förum í 5 á 5 þá er bara erfitt fyrir bæði lið að skora eins og það hefur verið í síðustu leikjum – 62-62 í síðasta leik og nánast bara keppni um það í framlengingunni hvort liðið yrði fyrri til að skora. 

Jájá, það er bara svolítið eins og þeir séu að reyna að halda þessu í 0-0 og skora eina körfu eins og í fótbolta…þetta mætti kannski kalla svona fótboltanálgun! 

Já við höfum í raun svolítið farið í það! Það er greinilega taktík hjá þeim að spila gríðarlega fast á bakverðina okkar, bæði með og án bolta. Við þrífumst best í hröðum leik og verðum að koma okkur í sóknina fyrr til að geta refsað…Brandon, Ægir og Antti eru allt gaurar sem vilja vera í flæði og spila fallegan körfubolta…við verðum að nýta það. 

Ægir var náttúrulega alveg geggjaður í þessum leik…það var ekki að skemma fyrir í kvöld..hann var kannski að finna og nýta veikleikana á vörninni…

Já algerlega…og hann var bara að gera allt fannst mér…hann stjórnaði öllu og var algerlega stórkostlegur. En það var líka mjög mikilvægt fyrir sálartetrið og fyrir okkur alla að fá 8 stig eða hvað það var frá Addú og Tomma í fyrri hálfleik og í svona seríu þar sem liðin eru að skora einhver 60 þá munar öllu að fá 8 punkta frá þeim, bæði fyrir þá og liðið. Við höfum talað um breidd í allan vetur og kannski notuðum við hana ekki nógu vel í síðasta leik, þá var ég að spila 40 og eitthvað mínútur að reyna að draga andann í framlengingunni. Við erum með fullt að góðum gaurum eins og Tomma og fleiri.

Það hefur verið svolítið talað um það, amk. hjá ÍR-ingum, að Stjörnuliðið sé svolítið keypt lið eða peningalið…og að það vanti kannski svolítið Stjörnuhjarta og eitthvað slíkt…skiptir þetta einhverju máli?

Þú þekkir það þar sem þú býrð þarna að Garðabær er ekki vinsælasta bæjarfélagið á Íslandi! Við erum allir bara aðkeyptir sálarlausir kapítalistar virðast margir halda. Hérna erum við að spila á móti ÍR og  allir bestu leikmenn ÍR eru bara helstu hetjur Seljahverfisins, sama hvaðan þeir eru. Umræðan er svolítið þannig. Og hér er óþægilegur sannleikur fyrir alla – ef enginn fengi borgað í KR eða Tindastól þá myndu þessi lið falla. Það er einfaldlega hrein íslenska. Það kostar peninga að búa til körfuboltalið.

Hversu mikið langar þig og öðrum köppum í liðinu til að verða Íslandsmeistarar með Stjörnunni?

Að sjálfsögðu langar mig að verða Íslandsmeistari! Þetta er þriðja árið mitt með Stjörnunni. Okkur langar það ekkert minna en neinum öðrum. Þó við komum víða að þá skiptir það engu. Og hvar ætti ég að spila ef ég á að vera með ,,mínu“ liði  – á ég að vera í Grundarfirði? Það er ekkert lið (í úrvalsdeild) í Grundarfirði og ég get ekki verið þar.

Vel mælt hjá Hlyni og til að hafa allt á hreinu þá er lið í Grundarfirði en auðvitað á allt öðru leveli og þar á landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi alls ekki heima.

Viðtal: Kári Viðarsson