Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur dæmt Darra Frey Atlason þjálfara Vals í eins leiks bann eftir háttsemi hans í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðsins gegn KR.

Darri hlaut tvær tæknivillur í röð eftir að hafa mótmælt dómi harðlega í byrjun fjórða leikhluta. Var honum því vísað af velli en Helena Sverrisdóttir leikmaður liðsins stýrði liðinu eftir það. Valsarar töpuðu leiknum og er staðan í einvíginu gegn KR 2-1 fyrir Völsurum.

Aganefnd úrskurðaði svo í gær að Darri fengi eins leiks bann og verður hann því í banni í kvöld þegar liðin mætast í fjórða sinn. Valsarar geta tryggt sér í úrslitaeinvígið með sigri en leikurinn hefst kl 18:00 í DHL-höllinni.