Daníel Guðni tekur við Grindavík

Grindavík hefur gengið frá ráðningu á Daníel Guðna Guðmundssyni fyrir komandi tímabil í Dominos deild karla. Daníel er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu, en ásamt því að hafa þjálfað meistaraflokk kvenna hjá þeim í vetur, spilaði hann einnig með þeim þegar að hann var ennþá leikmaður.

Daníel tekur við starfinu af Jóhanni Þór Ólafssyni, sem sagðist ekki ætla að taka að sér að þjálfa liðið áfram eftir þrjú tímabil félaginu. Ásamt því að hafa þjálfað meistaraflokk kvenna hjá félaginu hefur Daníel einnig víðtæka reynslu af þjálfun yngri flokka, sem og meistaraflokks karla hjá Njarðvík tvö tímabil þar á undan.

Grindavík endaði í 8. sæti Dominos deildarinnar síðastliðið tímabil. Duttu svo út úr úrslitakeppninni fyrir skemmstu eftir fjöruga 3-1 seríu gegn bikar og deildarmeisturum Stjörnunnar.