Dagur Kár Jónsson heldur áfram að gera garðinn frægan í austurrísku Bundesligunni með liði sínu, Raiffeisen Flyers Wels. Liðið, sem situr í fimmta sæti deildarinnar, lék í gær gegn UBSC Raiffeisen Graz og lauk leiknum með öruggum sigri Flyers Wels, 100-78.

Dagur Kár lék vel í leiknum og skoraði 18 stig, tók þrjú fráköst og gaf 2 stoðsendingar, en sigur Flyers Wels var áttundi heimasigur liðsins í röð. Eftir sigurinn sitja Flyers Wels í fimmta sæti Bundesligunnar að loknum 32 leikjum, en í þessum 32 leikjum hefur Dagur skorað um 10 stig að meðaltali í leik. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Arkadia Traiskirchen Lions þann 13. apríl næstkomandi, en Traiskirchen Lions sitja í sjöunda sæti deildarinnar.