Deildarkeppni Dominos deildar kvenna lauk í kvöld með fjórum leikjum. Einungis ein staða í deildinni var óljós fyrir kvöldið en það var hvaða lið myndi hreppa fjórða sæti og komast þannig í úrslitakeppnina.

Snæfell þurfti á sigri að halda í Origo höllinni til að komast í úrslitakeppnina og vona að KR myndi tapa. Valur hafði hinsvegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn fyrir leik og því ljóst að liðið myndi lyfta titlinum að honum loknum.

Óhætt er að segja að Snæfell sem lék án Kristen McCarthy hafi ekki átt möguleika gegn Völsurum sem leiddu 49-20 í hálfleik. Snæfell barði aðeins frá sér í seinni hálfleik en það dugði skammt.

Að lokum fór svo að Valur vann 82-56. Liðið hefur þar með unnið átján leiki í röð í deildarkeppninni og var síðasti tapleikur þann 28. nóvember síðastliðinn. Valsarar lyftu því deildarmeistaratitlinum verðskuldað eftir sigur kvöldsins.

Snæfell missti af úrslitakeppninni í ár eftir að hafa verið á toppnum á tíma fyrri hluta tímabils. Liðið vann hinsvegar einungis sex leiki eftir áramót af fimmtán og því fór sem fór.

Valur-Snæfell 82-56 (28-12, 21-8, 14-24, 19-12)

Valur: Heather Butler 30/8 stoðsendingar, Ásta Júlía Grímsdóttir 10/7 fráköst, Helena Sverrisdóttir 10/11 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 10/5 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 9, Hallveig Jónsdóttir 3, Guðbjörg Sverrisdóttir 3, Kristín María Matthíasdóttir 3/6 fráköst, Anita Rún Árnadóttir 2, Bergþóra Holton Tómasdóttir 2, Tanja Kristín Árnadóttir 0, Elísabet Thelma 0.
Snæfell: Angelika Kowalska 14/4 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 14/4 fráköst, Katarina Matijevic 12/7 fráköst/5 stolnir, Berglind Gunnarsdóttir 4, Gunnhildur Gunnarsdóttir 4/10 fráköst, Thelma Hinriksdóttir 3, Anna Soffía Lárusdóttir 3, Rebekka Rán Karlsdóttir 2/5 fráköst.

Mynd: Facebook-síða Vals