Stjarnan og Valur mættust að Ásgarði í kvöld, fyrir leikinn var ljóst að Valur gæti tryggt sér deildarmeistaratitilinn en Stjarnan er ennþá í fullri baráttu að halda þriðja sætinu sínu fyrir komandi úrslitakeppni.

Lítið var skorað í upphafi leiks en ljóst var frá fyrstu mínútu að um hraðan leik yrði að ræða. Valur náði að fínpússa sóknina sína snemma í fyrsta leikhluta og eftir það var ekki aftur snúið. Valur var með yfirhöndina sem eftir lifði leiks, þær skoruðu fyrstu stig leiksins en Stjarnan var ávallt tveimur skrefum á eftir Val og náðu þær aldrei að koma sér yfir né að jafna stöðuna í leiknum.

Augljóst var að Valskonur voru mættar til þess að tryggja sér annan titil tímabilsins, þær spiluðu ágenga vörn, og Stjarnan áttin engin svör við fagmannlega spiluðum sóknarleik þeirra. Í hálfleik var ljóst að Stjarnan þyrfti verulega að stíga upp ef þær ætluðu að eiga einhvern möguleika að stela sigrinum en í þriðja leikhluta var öll von úti. Svo virtist sem Stjörnukonur hefðu misst alla trú og væru ekki tilbúnar að berjast fyrir sigri þó svo að munaði einungis 17 stig.

Ef litið er til tölfræðinnar má sjá að Stjarna átti lélegan skot leik en aftur á móti voru Valskonur að hitta virkilega vel, þær settu niður 13 af 23 þriggja stiga skotunum sínum og eru þar með 57% nýtingu í þristum, sem er heilum 6% hærri en tveggja stiga nýting Stjörnunnar. Þar með er augljóst að segja að þriggja stiga nýting Valsara var hetja leiksins.

Nú er eingöngu ein umferð eftir af deildinni, Valur er búið að tryggja sér fyrsta sætið og þar með heimaleikjarétt, en Stjarnan er í lausu lofti. Sigri þær næsta leik komast þær í úrslitakeppnina en tapi þær á móti Breiðablik og bæði Snæfell og KR sigra verða þau öll jöfn stiga. Verður spennandi að sjá hvaða lið munu spila um Íslandsmeistaratitilinn.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Regína Ösp