Breiðablik tók á móti Valsstúlkum í Smáranum í kvöld í 25. umferð úrvalsdeildar kvenna. Blikar áttu ennþá möguleika á að verjast falli niður í 1. deild kvenna á meðan að Valsarar vildu ekki missa efsta sætið í deildinni. Leikurinn var sveiflukenndur og spennandi í fyrri hálfleik en eftir afleitan þriðja leikhluta hjá Blikastelpum sigldu Valsstúlkur öruggum sigri í höfn, 70-95.

Fyrir leikinn

Breiðablik hafði upp á síðkastið aðeins sótt í sig veðrið með tveimur sigrum í röð og eygðu tækifæri á að falla ekki niður í fyrstu deild kvenna. Þær grænklæddu úr Kópavoginum höfðu unnið tvo leiki í röð gegn Skallagrím og Haukum og gátu haldið sér uppi ef að þær ynnu allavega 3 af seinustu 4 leikjum sínum og ef Skallagrímur myndi tapa öllum sínum. Ekki mikill séns, en þó eitthvað.

Valsstúlkur höfðu unnið 14 sigra í röð og voru 15-1 í þeim 16 leikjum sem þær höfðu spilað síðan Helena Sverrisdóttir gekk til liðs við þær um miðjan nóvember á seinasta ári. Þetta var skyldusigur fyrir Val til þess að halda í toppsætið nema þær vildu reiða sig á að Keflavík tapaði sínum leik gegn Haukum í kvöld.

Gangur leiksins

Valur byrjaði með stórt lið inn á og gerðu vel í að loka teignum til að byrja með. Sókn Breiðabliks var ágæt í nokkrar mínútur en virtist staðna eftir það og þær áttu í mesta basli með að setja niður körfur gegn toppliði Valsstúlkna. Gestirnir spiluðu boltanum vel og fengu mörg góð skot úr flæðandi sóknum sínum og staðan eftir fyrsta leikhluta var því 11-20.

Blikar hófu annan leikhlutann aðeins öflugar en þann fyrsta og svæðisvörnin hjá þeim fór að ganga eftir nokkrar mínútur. Á 3. mínútunni fékk Darri Freyr, þjálfari Vals, tæknivillu eftir umdeilt atvik (að hans mati) í leiknum sem reyndist vera byrjunin á áhlaupi hjá Breiðablik. Á næstu þrem mínútum skoruðu heimastúlkur 9 stig gegn 2 og tóku eins stiga forystu, 25-24. Darri Freyr bað þá um leikhlé og Valur tók aðeins við sér eftir það og leikurinn var í járnum næstu mínúturnar. Valsstúlkur tóku forystuna aftur undir lok fyrri hálfleiks, 36-40.

Seinni hálfleikurinn hófst með yfirburðarspili Valsstúlkna. Þær rauðklæddu skoruðu 10 stig á fyrstu þremur mínútunum á meðan að ekkert gekk upp hjá Breiðablik og ekkert skot vildi ofan í. Áfram héldu Valsarar að skora og þegar 6 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hafði Valur skorað 21 ósvöruð stig. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir náði loksins að brjóta múrinn fyrir Breiðablik með körfu á 7. mínútunni og stigaskor leikhlutans var þar með orðið 24-2 fyrir Val. Valur kláraði leikhlutann sterkt og staðan í leikhlutanum varð 9-33 fyrir gestunum, 45-73 á heildina.

Breiðablik spilaði ágætan lokaleikhluta en skaðinn var löngu skeður. Hvað sem þær gerðu gat lítið breytt því að tækifærið að stela leik gegn toppliðinu hvarf í slökum þriðja leikhluta. Lokastaðan varð 70-95 í leik sem framan af leit út fyrir að vera spennandi en stóðst ekki væntingar eftir hálfleikshléið.

Lykillinn

Valsstúlkur spiluðu rosalega vel saman stærstan hluta leiksins og sex leikmenn skoruðu á annan tug stiga fyrir gestina í kvöld. Fremstar meðal jafningja voru þó þær Helena Sverrisdóttir og Simona Podesvova. Helena skoraði 12 stig, tók 21 fráköst (þ.a. 9 sóknarfráköst), gaf 7 stoðsendingar, stal 3 boltum og varði tvö skot á meðan að Simona skoraði 15 stig, tók 15 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þær voru saman með 63 framlagspunkta í leiknum (Helena 33 og Simona 30), meira en allt lið Breiðabliks samanlagt í kvöld.

Hjá Blikum var Þórdís Jóna Kristjánsdóttir framlagshæst með 20 stig og 6 sóttar villur. Þar að auki var hún ein fárra í liðinu með jákvætt plús/mínus í stigaskori (þ.e.a.s. meðan hún var inn á í leiknum var Breiðablik að vinna þær mínútur í stigaskori). Sanja Orazovic var líka góð fyrir Kópavogsliðið með 23 stig, 4 fráköst, 4 stolna bolta og 5 sóttar villur.

Tölfræðin

Valur nýtti stærðina og styrkinn í þessum leik mjög vel ef litið er á tölfræðina. Þær tóku 61 fráköst gegn 27 fráköstum hjá Breiðablik, skoruðu 52 stig inn í teignum gegn 38 hjá Blikum og skoruðu 22 stig eftir sóknarfráköst á meðan að Breiðablik gat ekki skorað eitt stig eftir sóknarfrákast. Þar fyrir utan hittu Blikar hrikalega úr þriggjum í leiknum, en þær tóku 28 þrista og settu aðeins fjóra þeirra (14,3% nýting). Breiðablik var duglegt að keyra upp í hraðaupphlaupum (29 stig gegn 11 stig hjá Val) en það dugði bara ekki til gegn flæðandi sókn Valsara (24 stoðsendingar gegn aðeins 9 hjá Breiðablik).

Hvað vann leikinn?

Stærð, styrkur og gæði sóknarleiksins hjá Val átti vinninginn í kvöld. Blikar réðu illa við stóru stelpurnar hjá Val, en gestirnir voru á hverjum tíma með minnst tvo leikmenn inn á yfir 180 cm. Svæðisvörn Breiðabliks kom Val í vandræði í öðrum leikhlutanum en eftir hálfleikshléið voru gestirnir búnir að finna svörin við henni og lokuðu mjög vel á heimastúlkur í upphafi seinni hálfleiks (21-0 áhlaup fyrstu 6 mínúturnar í þriðja).

Leikurinn hefði mögulega verið jafn og spennandi allt til enda ef að Val hefði ekki valtað svona yfir Breiðablik fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks. Úrslitin urðu hins vegar þessi og Valur vann verðskuldaðan sigur eftir góðan leik.

Næstu leikir

Þá sitja Valsstúlkur áfram í toppsæti deildarinnar og eru jafnar að stigum með Keflavík, sem unnu leikinn sinn gegn Haukum í kvöld. Valur spilar einmitt næsta leik við Keflavík í Origo-höllinni eftir viku (20. mars) og það gæti vel verið að sigurvegari þess leiks muni hampa deildarmeistaratitlinum.

Blikar máttu tapa einum af seinustu fjórum leikjum sínum fyrir þennan leik og hafa núna ekkert svigrúm. Ef að þær tapa einum leik í viðbót þá eru þær endanlega fallnar. Þær verða núna líka að vona að Skallagrímur tapi öllum leikjum sínum sem eftir eru, en Borgnesingar gerðu Blikum þann greiða að tapa fyrir Stjörnunni í kvöld. Breiðablik á næst leik gegn KR í DHL-höllinni eftir viku (20. mars).

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

Darri Freyr: Vorum á köflum aðeins of kúl.
“Svæðisvörnin þeirra var aðeins að valda okkur vandræðum í öðrum leikhlutanum. Við vorum ótrúlega staðar og að setja boltann yfir hausinn í stað þess að vera árásargjarnar og að leita að réttum tækifærum,” sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, eftir öruggan sigur á Breiðablik í leik sem var spennandi fram í hálfleik. “Sköpunargleðin var ekki í fyrirrúmi í sókninni og við vorum að bíða eftir að boltinn myndin skorast fyrir okkar,” sagði Darri, en Valsstúlkur misstu forystuna í miðjum öðrum leikhlutanum áður en þær endurheimtu hana rétt fyrir hálfleikshléið.

Gestirnir töluðu að sögn Darra Freys í hálfleik um að spila með meiri sköpunargleði sóknarlega og honum fannst sínar stelpur vera of öruggar með sigurinn framan af. “Við vorum á köflum aðeins of kúl,” sagði hann eftir 75-90 sigur á Blikum í Smáranum.

Valur er núna í efsta sæti í deildinni en standa þó jafnar að stigum með Keflavík og hafa innbyrðis viðureignina í bili. Aðspurður gékkst Darri við því að þær vildu auðvitað vinna deildarmeistaratitilinn: “Það eru allir að ljúga sem segjast ekki vera að keppa fyrir þessu. 
Auðvitað viljum við vinna. Ef það er keppni þá viljum við vinna.” Hann veit alveg að seinustu þrír leikirnir verði erfiðir og gerir ráð fyrir að liðið verði að vinna þá alla til að ná í deildarmeistaratitilinn.

Antonio: Vorum frábærar í fyrri hálfleik, sama hvernig lokastaðan varð.
Antonio D’Albero, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur eftir 75-90 tap gegn Val en fannst sínar stelpur þó hafa verið góðar á köflum. “Við vorum frábærar í fyrri hálfleik, sama hvernig lokastaðan varð,” sagði hann.

Valur tók yfir tvöfalt fleiri fráköst en Blikar í leiknum, sem fór alls ekki fram hjá Antonio: “Já, allt of mörg fráköst hjá hinum. Það hefur líka ekkert að gera með að við séum hræddar við að stíga út. Valur hefur stærðina.” Antonio benti réttilega á að Valur hefur nokkrar stelpur í nokkrum leikstöðum sem eru jafnstórar og flestir aðrir miðherjar í deildinni, “og þær hafa þær til skiptanna!” Honum fannst vörnina hafa verið nokkuð góða hjá liðinu sínu en sóknarfráköstin hafi drepið þær.

Þórdís Jóna hefur undanfarið átt góða leiki og Antonio hefur ekki miklar áhyggjur af framtíð Blika með slíkar stelpur innanborðs: “Þórdís var geggjuð, 20 stig í 10 skotum, 19 ára stúlka að skila svona tölum er tilefni til að vera bjartsýnn,” sagði Antonio og var augljóslega sáttur við framlag hennar.

Seinustu þrír Breiðabliks verða allir að vinnast ef að þær vilja halda sér uppi í úrvalsdeild kvenna og Antonio líst ágætlega á það verkefni. “Ég sagði við stelpurnar eftir leikinn að ef að við spilum svona áfram þá verður gaman í næstu 3 leikjunum hjá okkur,” sagði hann áður en hann hélt inn í klefa að skipuleggja næstu leiki með liðinu sínu.

Þórdís Jóna: Stelpurnar voru bara að finna mig.
“Ég er að fá fleiri mínútur og meira traust og er að sýna það sem ég get. Ég er bara að nýta tækifærið sem Antonio hefur gefið mér,” sagði Þórdís Jóna eftir þriðja leikinn í röð þar sem hún hefur skorað 10 stig eða fleiri. Hún var mjög öflug fyrir Blika í fyrri hálfleik og skoraði 11 af sínum 20 stigum leiksins í öðrum leikhlutanum. “Stelpurnar voru bara að finna mig,” sagði hin 19 ára varabakvörður Breiðabliks.

Róðurinn varð erfiðari í seinni hálfleiknum og Breiðablik gekk mjög illa að skora fyrstu sex mínútur þriðja leikhlutans. “Já, 21-0 áhlaupið í þriðja var útslagið í þessum leik,” sagði Þórdís Jóna, en hún var sú sem að lyfti álögunum og skoraði fyrstu stig síns liðs á 7. mínútunni í þeim leikhluta eftir að hafa verið skipt inn á nokkrum mínútum áður. “Við bara þurftum að halda áfram,” sagði hún um leikhlutann stopula.

Blikar eiga enn séns á að forðast fall í fyrstu deildina en mega ekki tapa einum leik það sem eftir er deildarkeppninnar. “Við höfum alltaf mjög mikla trú á þessu og vissum samt að þessi leikur væri erfiðastur og væri kannski leikurinn sem að við mættum tapa.” Þórdís sagði að lokum að ef að Blikastelpur spila eins og þær spiluðu fyrstu 20 mínúturnar í þessum leik þá geti þær unnið hvaða lið sem er.

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson