Umfjöllun: Skyldusigur Stólanna í Síkinu

Pétur Rúnar skilar 2 stigum á töfluna

Það var ekki áferðafallegur körfubolti sem lið Tindastóls og Breiðabliks buðu áhorfendum uppá í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Blikar eru þegar fallnir úr Dominos deildinni og höfðu ekki að neinu að keppa en Tindastóll þurfti sigur til að halda sér í þriðja sæti deildarinnar.

Þetta var þó ekki augljóst í byrjun þar sem Blikar voru mun ákveðnari í sínum aðgerðum á meðan heimamenn virtust líta á leikinn sem æfingaleik sem þyrfti að klára af, helst með sem minnstri fyrirhöfn. Brynjar byrjaði leikinn á tveimur þristum en hann setti einmitt met í slíkum í fyrri leik liðanna.

Það dugði þó skammt þar sem aðrir hittu afleitlega og vörnin var hreinlega ekki til staðar hjá heimamönnum. Blikar leiddu 20-24 að loknum fyrsta leikhluta. Annar leikhluti spilaðist svipað og Blikar voru skrefi á undan þangað til Stólar tóku smá sprett og skoruðu 9 síðustu stig hálfleiksins, Pétur setti tvo þrista í lokin og tryggði forystu heimamanna í hálfleik, 44-39

Heimamenn litu í raun ekki um öxl eftir þetta, fóru að taka aðeins betur á í varnarleiknum og forystan jókst hægt en örugglega. Israel Martin róteraði liðinu mikið og það er ólíklegt að menn hafi orðið mjög þreyttir í leiknum. Í lok þriðja leikhluta var munurinn orðinn 19 stig og formsatriði að klára leikinn, sem endaði 94-70 fyrir heimamenn eftir bragðdaufan seinasta leikhluta þar sem fátt gladdi augað nema þristur frá Helga Margeirs sem hefur ekki sést mikið á parketinu í vetur.

Aðkoma heimamanna í Tindastól að þessum leik var hálfskrítin, það var eins og þeir væru að spila æfingaleik en þó alls ekki ljóst hvað þeir voru að æfa inni á vellinum. Sóknarleikurinn gekk frekar stirðlega og skotin oft erfið. Pétur Rúnar var einna sprækastur í annars jöfnu liði og skilaði 21 stigi. Brynjar var með 14 stig og 5 stoðsendingar og Alawoya setti 12 stig og tók 8 fráköst. Hjá Blikum var Árni Elmar sprækur, setti 16 stig, þar af 5 þrista. Allir leikmenn liðanna fengu að spreyta sig í kvöld.

Það er ljóst að Tindastóll þarf að girða sig verulega í brók ef þeir ætla að halda þriðja sætinu, eiga næst útileik í Fjósinu áður en Kef koma í heimsókn í Síkið í síðasta deildarleiknum.

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna