Valur tók í kvöld á móti Haukum í 23. umferð Domino’s deildar kvenna. Þetta var seinasta viðureign liðanna á tímabilinu og byrjun hans lofaði góðu um spennandi leik allt til enda. Svo fór hins vegar að þurrkatíð í skori hjá gestunum í þriðja leikhluta leiddi til þess að Valsstúlkur höfðu að lokum öruggan sigur, 85-55.

Fyrir leikinn var ljóst að stólpar í sitt hvoru liðinu yrðu ekki með. Ásta Júlía Grímsdóttir sat við hlið Darra Freys, þjálfara Vals, og Klaziena Guijt, erlendur leikmaður Hauka, var sitjandi á bekknum vegna sárs á hendi. Haukastelpur voru því með Íslenskt, já takk! í kvöld á meðan að Valur hafði ekki alla þá stærð sem þær hafa vanalega getað reitt sig á.

Frá fyrstu mínútu virtust Valsstúlkur eitthvað flatar og gekk illa að fá gott flæði í sóknirnar sínar. Á sama tíma sýndu Haukastelpur frábæra boltahreyfingu sóknarlega og allt virtist ganga upp hjá þeim. Darri Freyr neyddist fljótlega til að taka leikhlé í stöðunni 3-7 eftir að hans stelpur höfðu aðeins sett eitt skot á 4 mínútum. Heimaliðið náði þá aðeins að vakna til lífsins og lokuðu fyrsta leikhlutanum ágætlega, 19-14.

Það var ekki mikill munur á leik liðanna beggja en það sem skildi á milli var hversu grimmar Valsstúlkur voru að refsa fyrir mistök Haukanna. Þær náðu ágætri forystu á kafla en þá komu Haukastúlkur til baka með fínt áhlaup. Valur svaraði þá einfaldaði með öðru áhlaupi og breikkaði bilið í 20 stig í hálfleik, 51-31.

Í leikjum sem þessum þar sem lið spila hraðar sóknir er 20 stiga munur alls ekki óyfirstíganleg hindrun. Vandinn var að þrátt fyrir ágæta sóknartilburði hjá gestunum þá virtist lok vera komið á körfuna hjá Haukum eftir hálfleikshléið. Allar tíu mínútur þriðja leikhluta gátu þær hafnfirsku ekki fengið eitt skot til að detta og til að bæta gráu ofan á svart fengu þær engin vítaskot. Haukar þurftu því að sætta sig við 19-0 leikhluta í stigaskori og staðan skyndilega orðin 70-31.

Fjórði leikhlutinn fór að mestu vel fram þar sem Valsstúlkur hleyptu reynsluminni leikmönnum sínum að og Haukastelpur gátu aðeins klórað í bakkann. Leiknum lauk með 30 stiga mun þar sem Valur vann örugglega, 85-55.

Lykillinn

Allir leikmenn Vals áttu fínar rispur á mismunandi tímum í kvöld þannig að það væri mögulega ekki sanngjarnt að skilja eina frá hópnum. Þó má nefna að miðherjinn Simona Pedosvova, sem kom af bekknum í kvöld, var hreint afbragð í baráttu og skilvirkni. Hún lauk leik með 8 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar, 5 stolna bolta og 2 varin skot (24 framlagspunktar á heildina). Aðrar góðar voru þær Heather Butler (17 stig, 20 í framlag og +33 í plús/mínus) og Hallveig Jónsdóttir (14 stig og +34 í plús/mínus). Hjá gestunum var Bríet Lilja Sigurðardóttir best með 15 stig og 9 fráköst (18 framlagspunktar á heildina).

Hvar vannst leikurinn?

Leikurinn tapaðist á afleitri skotnýtingu Haukastelpna í þriðja leikhlutanum. Þær tóku 15 skot en ekkert þeirra vildi fara niður á meðan að Valsstúlkur héldu áfram að malla þægilega með 19 stig í fjórðungnum. Það er erfitt að yfirstíga 39 stiga mun og þær rauðklæddu gátu það ekki í kvöld.

Hvað tekur við?

Nú er orðið ljóst að Haukar eru hvorki að fara falla né ná að komast í úrslitakeppnina á þessu tímabili. Leikirnir sem eftir eru munu reynast mikilvægir fyrir reynslubanka margra ungra leikmanna í liðinu og Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari Hauka, er örugglega búin að hvetja sínar stelpur til að nýta leikina til fulls. Seinustu fimm leikirnir eru upp á stoltið frekar en nokkuð annað.

Valur trónir núna á toppi deildarinnar og þurfa bara að halda áfram að spila vel og tryggja sér þannig deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn gegnum alla úrslitakeppnina. Þær eiga einn leik eftir við öll hin fjögur liðin sem eru að berjast um úrslitakeppnissæti þannig að einbeitingin verður að vera algjör.

Tölfræði leiksins

Myndasafn væntanlegt

Viðtöl eftir leikinn:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Mynd í fyrirsögn / Torfi Magnússon