Það var ótrúlegur körfuboltaleikur sem lið Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn buðu upp á þegar einvígi liðanna í átta liða úrslitum Dominos deildarinnar í körfuknattleik hófst í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Heimamenn í Tindastól höfðu lokið deildakeppninni með gríðarsterkum sigri á Keflavík og það var von Grettismanna á pöllunum að áframhald yrði á þeirri spilamennsku í kvöld. Sú varð þó alls ekki raunin því heimamenn fóru hægt af stað og áður en menn áttuðu sig höfðu sprækir Þórsarar smellt átta stigum á töfluna og það voru liðnar næstum 2 mínútur af leiknum áður en heimamenn komust á blað. Þórsarar héldu áfram að þjarma að Tindastól með öflugum varnarleik og hittni sem sjaldan eða aldrei hefur sést í Síkinu. Það virtist sama hvernig gestirnir hentu boltanum að körfunni, það var allt ofaní. Á meðan voru heimamenn í vandræðum með að finna skot þó það hafi lagast aðeins þegar leið á fjórðunginn og þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn 10 stig, 23-33.

Annar leikhluti fór svipað af stað, gestirnir létu rigna þristum og náðu mest 15 stiga forystu í stöðunni 28-43 og þá var heimamönnum í stúkunni alveg hætt að lítast á ástandið. Heimamenn á vellinum voru þó ekki á því að gefast upp og þristar frá Brynjari, Alawoya, Dino og Axel löguðu stöðuna á meðan aðeins hægðist á hittni gestanna. Danero Thomas jafnaði svo leikinn með þristi þegar um ein og hálf mínúta voru til hálfleiks en Rochford, sem greinilega var ekki alveg heill og Tomsick sáu til þess að gestirnir höfðu tveggja stiga forystu í leikhléi, 53-55.

Heimamenn komust yfir í fyrsta skipti í leiknum fljótlega í seinni hálfleik og þriðji leikhlutinn var gríðarlegur barningur þar sem liðin skiptust á forystunni og mátti vart á milli sjá. Þórsarar náðu þó sex stiga spretti í lok fjórðungsins þegar Martin hvíldi helstu sóknarógnir sínar og leiddu 79-83 fyrir lokaátökin. Liðin skiptust svo á þristum í upphafi fjórða leikhluta en heimamenn náðu að jafna í 92-92 með íleggju frá Dino þegar rúmar 2 mínútur voru liðnar. Heimamenn skoruðu svo næstu 7 stig og þegar Pétur Rúnar kom stöðunni í 102-94 og rétt um 5 mínútur voru eftir héldu flestir á pöllunum að Tindastóll hefði loks náð að hrista gestina af sér.

Svo var þó aldeilis ekki því gestirnir settu lok á körfuna og náðu að jafna leikinn í 102-102 með gríðarlegri baráttu og stemningskörfum. Alawoya kom þó heimamönnum aftur til meðvitundar með and1 þegar 1:20 voru eftir og í næstu sókn setti Brynjar víti sem kom muninum í 4 stig og 50 sekúndur eftir. Baldur Þór tók leikhlé en næsta sókn gestanna klikkaði og Pétur Rúnar kom muninum í 108-102 þegar aðeins 19 sekúndur voru eftir. Enn tók Baldur leikhlé og nú gekk kerfið upp og Tomsick setti ævintýralegan þrist og gestirnir brutu strax á Pétri Rúnari í kjölfarið. Þriggja stiga munur og 15 sekúndur eftir. Pétur Rúnar var hinsvegar öryggið uppmálað á vítalínunni og það fór svo að hann tryggði sigur heimamanna þar með því að setja síðustu 4 stigin.

Hjá heimamönnum voru það Pétur Rúnar (24 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst, 11/12 í vítum), Alawoya (27 stig, 71% skotnýting) og Danero Thomas (19 stig, 12 fráköst) sem voru atkvæðamestir en hjá gestunum átti Nikolas Tomsick algeran stjörnuleik með 39 stig (61% skotnýting, 58% í þristum) og 7 stoðsendingar. Það dugði þó ekki til og það er auðvitað áhyggjuefni fyrir Þórsara en næsti leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á mánudaginn.

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna