Stjörnukonur tóku í gær á móti KR í Domino’s deild kvenna. Fyrir leik voru Garðbæingar í fimmta sæti deildarinnar, jafnar Snæfelli sem sat í fjórða sæti, en KR-ingar sátu í því þriðja. Jafnræði var með liðunum framan af, en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-15, heimakonum í vil. Í öðrum fjórðung náðu Stjörnukonur, eða öllu heldur Danielle Rodriguez, virkilega góðum kafla, en Dani skoraði 15 stig í fjórðungnum, þar af þrjá galopna þrista. Staðan í hálfleik var 45-36, heimakonum í vil. Þriðji leikhluti fer seint í sögubækurnar fyrir góðan körfuknattleik, en liðunum gekk mjög erfiðlega að setja stig á töfluna. Þegar um mínúta var eftir af fjórðungnum höfðu heimakonur einungis skoraði sjö stig í fjórðungnum og voru algerlega ískaldar í skotum fyrir utan vítateig. Þá skoruðu Veronika Dzhikova og Bríet Sif Hinriksdóttir, sem hittu samtals úr þremur af 18 þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum, tvo risaþrista í röð, báðar með varnarmann þétt í andlitinu, og komu Stjörnunni átta stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 58-50. Þessir þristar slökktu algerlega á gestunum og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Garðbæinga sem völtuðu hreinlega yfir KR-inga í lokafjórðungnum. Lokastaðan 80-58.

Lykillinn

Það má færa rök fyrir því að fyrrnefndir þristar Veroniku og Bríetar í ok þriðja leikhluta hafi gert útslagið, en eftir þristana tók Stjarnan 18-2 áhlaup sem breytti stöðunni úr 52-50 í 70-52. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.

Hetjan

Þrátt fyrir að Veronika og Bríet hafi kveikt neistann sem varð að fyrrgreindu 18-2 áhlaupi, þá var Danielle Rodriguez langbest á vellinum. Dani lauk leik með 36 stig, 19 fráköst og 6 stoðsendingar, og hefði líklega getað bætt við þær tölur ef hún hefði ekki þurft frá að hverfa með þrjár villur í fyrsta leikhluta, en hún fékk svo ekki villu það sem eftir lifði leiks.

Framhaldið

Eftir sigurinn eru Stjörnukonur komnar í fjórða sæti deildarinnar, þar sem Snæfell tapaði sínum leik gegn Keflavík. Tvö stig skilja nú að KR í þriðja sæti og Stjörnuna í því fjórða, og er Snæfell tveimur stigum þar á eftir í því fimmta. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er því áfram í algleymingi en næsti leikur Stjörnunnar er einmitt  gegn Snæfelli í Stykkishólmi laugardaginn 9. mars klukkan 16:30. Á sama tíma spila KR-ingar hins vegar við Val.