Það var hörkustemmning í Grindavík í kvöld þegar að Stjörnumenn mættu í Mustad-Höllina, sigur heimamanna myndi þýða oddaleik í Garðabænum en ef stjörnusigur yrði niðurstaðan þá væri röðin komin að sumarfríi hjá Grindvíkingum.

Grindvíkingar byrjuðu betur en það var þú fremur jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur bauð uppá mikið af því sama en liðin skiptust á að hafa forystu. Körfubolti er í grunninn leikur áhlaupa og þegar að upp var staðið höfðu Stjörnumenn átt síðasta orðið. Niðurstaðan sjö stiga sigur stjörnunnar eftir æsilegar lokamínútur. Lokatölur urðu 76 – 83.

Brandon Rozzell var stigahæstur hjá Stjörnunni með 21 stig og 7 stoðsendingar en hjá heimamönnum var Lewis Clinch Junior atkvæðamestur með 21 stig og 6 stoðsendingar.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Grindvíkingar höfðu betur í frákastabaráttunni sem oftar en ekki dugar til sigurs en það er erfitt að vinna leiki þegar að skotin detta ekki. Grindvíkingar buðu upp á 24% þriggja stiga nýtingu og í nútímakörfubolta er líklegt að menn tapi leikjum þegar að það er staðan. Stjörnumenn aftur á móti hentu í 36% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna og voru einfaldlega að fá betri skot, 5 fleiri þristar hjá Garðbæingum í 7 stiga sigri.

 

Kjarninn

Það er ekki auðvelt að finna einhvern stórasannleik til þess að útskýra hvers vegna Stjarnan vann þennan leik. Ef maður nýtir sér hugmyndina um rakhníf Occams þá gefur maður sér að augljósasta ástæðan sé rétta ástæðan og fyrir undirritaðann þá var munurinn á liðinum í lokin Brandon nokkur Rozzell. Rozzell átti vondann fyrri hálfleik og virtist ekki vera alveg rétt stiltur en þegar að pressan var kominn í lokin var hann rólegasti maðurinn á vellinum og sökkti risastórum skotum til þess að klára leikinn. Stórir leikir kalla á stór skot og Brandon setti þau í kvöld.

 

Næstu skref

Það er orðið ljóst að Stjörnumenn eru komnir áfram en andstæðingurinn liggur ekki fyrir. Ef að ÍR kemst áfram þá spilar Stjarnan við Breiðhyltinga í næstu umferð en ef að Njarðvík kemst áfram þá spila Stjörnumenn við sjóðheita KR-inga.

Grindvíkingar hins vegar eru komnir í sumarfrí og það er ekki ljóst hvernig liðið verður skipað á næsta tímabili. Það eina sem er ljóst er að þjálfari liðsins, Jóhann Ólafsson mun stíga til hliðar og hætta með liðið. Jóhann hefur gert flotta hluti með liðið á síðustu árum og á hrós skilið fyrir sín störf. Vonandi verður þetta ekki það síðasta sem við sjáum af Jóhanni sem þjálfara.

 

Tölfræði leiksins