Njarðvíkingar mættu í Hertz hellin í kvöld til þess að freista þess að taka 2-0 forystu í einvíginu gegn ÍR-ingum. Kevin Capers var ekki með ÍR í kvöld vegna leikbanns eftir frægt atvik í leik eitt í seríunni.

Leikurinn í kvöld var að mörgu leiti einkennilegur. Stærstu póstar liðanna tveggja, þeir Matthías Orri hjá ÍR og Elvar Már hjá Njarðvík áttu ekki sína bestu leiki svo að aðrir leikmenn þurftu að stíga upp. Sá sem steig mest upp, og breytti í raun leiknum var Maciek Baginski hjá Njarðvík.

Njarðvíkingar leiddu þennan leik frá upphafi til enda og voru mest allan síðari hálfleik með 10 – 14 stiga forystu. Þeir sigldu þessu svo í land í lokin. Lokatölur 70 – 85 og Njarðvíkingar einum leik frá undanúrslitum.

Stigahæstur Njarðvíkinga var Maciek Baginski með 21 stig en hjá ÍR var Gerald Robinson atkvæðamestur með 25 stig og 15 fráköst.

Tölfræðin lýgur ekki

Leikmenn ÍR fóru virkilega illa að ráði sínu á vítalínunni í kvöld. Sérstaklega átti Matthías Orri erfiðan dag af línunni með 1/7 sem er skelfilegt. ÍR klikkaði úr 11 vítum og luku leik með 60% vítanýtingu. Hjá Njarðvík var nýtingin 80%. Það var líka erfitt að horfa á ÍR klikka úr opnum sniðskotum í hraðaupphlaupum 6 sinnum í leiknum og það er ljóst að þeir verða að bæta þessa hluti. Annars er sumarfrí næst á dagskrá.

Þáttaskil

Það sem breytti leiknum var skemmtileg taktík Einars Árna að láta Maciek Baginski fara niður á blokkina og pósta upp á Matthías sem réði ekkert við Maciek. Maciek setti einhver 8 stig í röð af blokkinni og neyddi Borce, þjálfara ÍR til þess að skipta yfir í svæðisvörn svo það væri ekki hægt að pósta upp smávöxnu bakverðina hjá liðinu. Þessi svæðisvörn var ekki upp á marga fiska og fengu Njarðvíkingar allt sem þeir vildu gegn henni. Það má því segja að kennslustund Maciek á póstinum hafi breytt leiknum.

Atvikið

Áhugavert atvik átti sér stað í 2. Leikhluta. Þá lenda þeir Eric Katenda og Sigurkarl í smávegis barningi. Þeim barningi lauk með því að Katenda sparkaði í Sigurkarl eftir að það var búið að flauta. Ljótt spark hjá Katenda og með hreinum ólíkindum að hann hafi hangið inni á vellinum, en dómarar leiksins dæmdu einungis óíþróttamannslega villu á Frakkann. ÍR-ingar eru sennilega frekar súrir með þá niðurstöðu enda þeirra leikmaður í leikbanni fyrir óíþróttamannslegt brot í síðasta leik.

Stóra myndin

Njarðvíkingar eru komnir með afgerandi 2-0 forystu í þessu einvígi, það er mjög erfitt að sjá þetta enda öðruvísi en með sigri Njarðvíkur sem að eftir allt saman eru með betra lið og meiri breidd. Það er samt gaman að sjá baráttuna í ÍR-liðinu sem á meira inni en þeir sýndu í kvöld.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)