Alba Berlín var heldur betur með bakið uppvið vegg fyrir leiki dagsins í átta liða úrslitum EuroCup. Liðið mætti Unicaja í leik tvö í einvígi liðanna sem fram fór á Spáni í kvöld.

Unicaja vann fyrsta leik liðanna með minnsta mögulega mun í Berlín og gat spænska liðið því farið í undanúrslit með sigri í kvöld. Martin Hermannsson og félagar í Alba voru ekki á þeim buxunum í kvöld.

Alba voru í bílstjórasætinu meirihluta leiksins en gerðu algjörlega útum leikinn með frábærum fjóra leikhluta. Lokastaðan var 81-101 fyrir Alba Berlín gegn gríðarlega sterku liði Unicaja Malaga.

Martin Hermannsson var gríðarlega öflugur og daðraði við tvöfalda tvennu. Hann endaði með 11 stig, 9 stoðsendingar auk þess að fiska sex villur.

Þar með tryggði Alba sér oddaleik í þessu frábæra einvígi en sá leikur fer fram á miðvikudaginn. Valencia er eina liðið sem er komið í undanúrslit úr einvígunum en liðið vann Rytas Vilinius í dag.