Rétt í þessu lauk oddaleik Alba Berlín og Unicaja Malaga í átta liða úrslitum Eurocup, einni sterkustu deild evrópu. Liðin höfðu skipst á sigrum í fyrstu tveimur leikjunum og því hreinn úrslitaleikur í kvöld á heimavelli Alba Berlín.

Óhætt er að segja að um algjöran naglbít hafi verið að ræða þar sem engu mátti muna. Lið Unicaja var með yfirhöndina í byrjun fjórða leikhluta en þá hitnaði Berlínarliðið fyrir utan þriggja stiga línuna sem kom þeim á ný inní leikinn.

Að lokum fór svo að Alba Berlín vann magnaðan sigur 79-74 þar sem liðið setti sigurkörfuna með 15 sekúndur eftir eftir mikið klafs. Opið skot Sasu Salin fyrir Malaga í lok leik til að jafna leikinn vildi ekki ofan í og sigur Alba Berlínar því staðreynd.

Martin Hermannsson var að sjálfsögðu í stóru hlutverki fyrir Alba Berlín og lék lokamínúturnar auk þess að vera í byrjunarliði. Hann endaði með tíu stig, tvær stoðsendingar og setti gríðarlega mikilvæga körfu í lok leiks til aðkoma Alba Berlín í góða stöðu.

Kazan og Valencia eru einnig komin í undanúrslitin en franska liðið ASVEL og Morabanc Andorra leika núna í síðasta leik átta liða úrslitunum. Alba Berlín mætir ASVEL eða Andorra í næstu umferð. Unicaja sigraði þessa keppni fyrir tveimur árum og eru með gríðarlega sterkt lið. Magnaður árangur hjá liði Alba og Martin.