Íslandsmeistarar KR heimsækja Grindavík í kvöld kl. 20:00 í 19. umferð Dominos deildar karla. Liðið sem stendur í 5. sæti deildarinnar, með 22 stig eftir fyrstu 18 umferðirnar. Grindavík tveimur sætum neðar, í því 7. með 16 stig eftir jafn marga leiki.

Lið KR verður í leiknum án hjálpar tveggja sinna bestu leikmanna, en bæði eru Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij frá vegna meiðsla. Jón er meiddur á öxl eftir samstuð sem hann lenti í í landsleiknum gegn Portúgal og þá er Pavel frá vegna meiðsla í kálfa. Samkvæmt þjálfara liðsins, Inga Þór Steinþórssyni, er ekki vitað hvenær þeir eiga afturkvæmt á völlinn.

Góðu fréttirnar fyrir stuðningsmenn KR eru þær að framherjinn Kristófer Acox mun vera með liðinu í kvöld þrátt fyrir að fingur hans hafi farið úr lið á æfingu á dögunum. Samkvæmt þjálfaranum mun það hafa verið erfitt að koma honum aftur í lið, en leikmaðurinn ætli sér þrátt fyrir þetta að vera með gegn Grindavík í kvöld.