Grindavík lagði Hauka fyrr í kvöld í DB Schenker höllinni í Hafnarfirði. Sigurinn mikilvægur fyrir Grindavík, sem eiga í harðri baráttu við ÍR og Hauka um sæti í úrslitakeppninni.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við þjálfara Grindavíkur, Jóhann Þór Ólafsson, eftir leik í Hafnarfirði en hann varnokkuð sáttur með sína menn í kvöld:

Tvö stig í sarpinn eftir þennan leik og býsna líklegt að þið verðið inn í úrslitakeppninni ekki satt?

Jújú, þetta var mikilvægur sigur en það eru tveir leikir eftir þannig að við erum bara salírólegir. Við erum að fara að spila í hörkuleik í Garðabænum á mánudaginn gegn besta liði landsins og við tökum bara eitt skref í einu.

Hvernig fannst þér þessi leikur hjá þínum mönnum?

Mér fannst við bara hörkugóðir, mér fannst við velja vel varnarlega, við vorum kannski svolítið villtir í sókn og tökum þrælvafasamar ákvörðunartökur svona oft á tíðum. En meðan vörnin okkar er góð og það er kraftur í okkur og vilji varnarlega þá erum við bara helvíti góðir.

Jájá, og það er kannski nokkuð sterkt að vinna þennan leik þó Arnar hafi alls ekki fundið sig í kvöld..

Jájá klárlega, hann var off í dag bara eins og gengur og gerist. Lewis var aftur á móti hörku góður og Ingvi valdi oft á tíðum mjög vel í sókn, Jordy var sterkur undir körfunni og Ólafur skilaði sínu og við fengum flott framlag af bekknum þannig að heildarbragurinn var bara mjög góður.

Nú verð ég að viðurkenna að ef ég væri þjálfari Grindvíkinga, sem ég er sem betur fer ekki fyrir Grindvíkinga….

…Jah…það er atvinnuviðtal eftir tvær vikur, þú getur boðið þig fram!

…já ég frétti það! En ég verð semsagt að viðurkenna að ég ætti svolítið erfitt með að vera bjartsýnn á árangur í úrslitakeppninni…nú lendið þið líklegast á móti Stjörnunni eða Njarðvík. En þú ert hins vegar væntanlega ekkert smeykur við að reyna?

Neinei…ég er bara þannig gerður að ég er ekkert kominn lengra en bara í kvöldið í kvöld og svo einbeitum við okkur bara að mánudeginum. En ég skil alveg þá sem tala þannig, eins og þú. En ef við komumst í úrslitakeppnina þá komum við bara fullir sjálfstraust þangað. Úrslitakeppnin er allt annað game og margt getur gerst. En ég skil þessar efasemdaraddir.

Jájá, og það hefur svosem sína kosti að hafa ekki pressuna á sér og vera litla liðið..

Já, klárlega, það eru kostir og gallar við það.

Nú ertu að fara að hætta með liðið, var það alfarið þín ákvörðun?

Já það var það. Ég veit svo sem ekki hvort ég var að skera sjálfan mig úr snörunni en þetta er komið gott. Ég er búinn að vera í íþróttahúsinu í Grindavík síðan 2009, fyrst með kvennaliðið og búinn að vera svo með karlaliðið í fjögur ár. Það er kominn tími á að fá ferska vinda, nýtt andlit og nýja rödd. Við erum öll sammála um það og þetta er allt gert í góðu.

Það væri svo náttúrlega æðislegt fyrir þig að enda þetta með því að ná fram óvæntum úrslitum í úrslitakeppninni!

Jájá, við einbeitum okkur bara að því að klára þetta með sæmd og við einbeitum okkur að næsta leik gegn Stjörnunni.

 

Viðtal / Kári Viðarsson