Njarðvíkingar tóku á móti ÍR í leik þrjú í 8 liða úrslitum Dominos deildar karla í kvöld. Njarðvíkingar unnu fyrstu tvo leikinna og gátu því með sigri verið fyrstir til að tryggja sér sæti í 4 liða úrslitum að sama skapi var það sigur eða sumarfrí fyrir ÍRinga.

Mikill hiti var í leiknum en bæði lið gerðu mikið af mistökum fyrstu mínúturnar, vörnin var einnig mjög þétt lítið skorað fyrstu mínúturnar. Um miðbik leikhlutans voru aðeins komin 12 stig á töfluna samanlagt. Það gekk aðeins betur að skora síðustu mínútur leikhlutans en liðin voru áfram hnífjöfn. Það komu 14 stig á fyrstu tæpu 7 mínútunum í leikhlutanum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 16 – 18.

Jafnt var með liðunum fyrstu tvær mínúturnar en svo fór Njarðvík að sigla fram úr. Um miðjan leikhluta var forysta Njarðvíkinga komin í 10 stig. Þessi munur hélst þar til að ÍRingar áttu frábærann kafla síðustu 2 mínúturnar eða svo og náðu að kroppa aðeins í forystu Njarðvíkinga. Staðan í hálfleik 38 – 32.

ÍRingar byrjuðu þriðja leikhluta grimmir, settu fyrstu tvær körfunar og minnkuðu muninn niður í 2 stig. Njarðvíkingar náðu að verja forystuna næstu mínútur en þegar um 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum jöfnuðu ÍRingar leikinn 48 – 48. Um mínútu síðar þegar um 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum kom Kevin Capers ÍRingum yfir frá vítalínunni, í fyrsta skipti sían í byrjun annars leikhluta. ÍRingar héldu forystunni út leikhlutann. Staðan fyrir fjórða leikhluta 50 – 53.

Fjórði leikhluti byrjaði með látum. Njarðvíkingar náðu að jafna leikinn en það tók þá 4 og hálfa mínútu að gera það. ÍRingar komust aftur yfir með hörku baráttu og héldu forystunni út leikinn. Gríðarlega flott frammistaða ÍRinga í seinni tveim leikhlutunum. Lotatölur 64 – 70.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Eric Katenda, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

ÍR: Gerald Robinson, Kevin Capers, Matthías Orri Sigurðsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Sigurkarl Róbert Jóhannesson.

Þáttaskil:

Þriðji leikhluti ÍRinga var frábær. Þeir kláruðu svo vel í fjórða.

Tölfræðin lýgur ekki:

ÍRingar hittu betur, tóku fleiri fráköst og töpuðu færri boltum.

Hetjan:

Elvar Már Friðriksson var bestur Njarðvíkinga, Logi Gunnarsson og Ólafur Helgi Jónsson áttu síðan fína innkomu af bekknum.

Sæþór Elmar Kristjánsson átti frábæra innkomu af bekknum fyrir ÍR. En það var Kevin Capers sem var bestur á vellinum í kvöld.

Kjarninn:

Vörnin hjá báðum liðum var í aðalhlutverki í kvöld. ÍRingar sýndu frábæran karakter með því að sækja þennan sigur og þurfa að byggja á honum fyrir heimaleikinn um helgina. Það er kannski bara ekkert sumarfrí í vændum í Breiðholtinu.

Myndasafn

Viðtöl: