Körfuknattleiksþing KKÍ fer fram um næstu helgi þar sem fulltrúar frá aðildarfélögum og sambandsaðilum KKÍ kjósa í stjórn KKÍ, skýrsla stjórnar lögð fram ásamt reikningum. Auk fleiri reglubreytinga og umræðna.

Um næstu helgi verður kosið til stjórnar KKÍ og er ljóst að venju samkvæmt verða einhverjar breytingar á skipan stjórnar. Karfan sló á þráðinn til Hannesar S. Jónssonar fyrr í dag þar sem hann staðfesti að hann hefði boðið sig fram til endurkjörs.

Ekkert annað framboð barst til formanns fyrir tilsettan framboðsfrest. Hannes mun því sitja áfram sem formaður KKÍ næstu tvö árin. Hannes hefur verið formaður KKÍ frá árinu 2006.

Þingtillögur, skýrsla og fleira fyrir þingið var birt fyrr í dag þar sem kennir ýmissa grasa. Karfan mun greina frekar frá stjórnarkjöri og fregnum frá þinginu um helgina.