Úrslitakeppnin í 1. deild kvenna hófst í kvöld þegar Grindavík tók á móti Þór Akureyri en liðin enduðu í 2. og 3. sæti og Grindavík því með heimaleikjaréttinn. Í hinni rimmunni mætast Fjölnir og Njarðvík og hefja þau leik á morgun.

En að leik kvöldsins. Heimastúlkur tóku strax völdin og leiddu að loknum 1. fjórðungi, 30-14. Þær voru áfram við stjórnvölinn í öðrum en Þórsstúlkur náðu aðeins að halda í við þær gulklæddu en munurinn jókst samt um 5 stig og því munaði 21 stig í háflleik, 52-31. Það er ansi mikill munur í kvennakörfunni og nokkuð ljóst Grindvíkingurinn Helgi Rúnar Bragason, þjálfari Þórs þyrfti að galdra eitthvað rækilegt upp úr hattinum sínum en það gekk ekki þótt stelpurnar hans hafi unnið seinni hálfleikinn, 28-35. Lokatölur því 80-66.

Það vakti athygli fyrir leik að Kani Grindavíkur, Hannah Louise Cook var ekki í búningi en hún fékk leyfi frá þessum fyrsta leik til að vera viðstödd brúðkaup vinkonu sinnar í Bandaríkjunum. En þar sem hún hefur á engan hátt komið og dómenerað leik liðsins, þá kom fjarvera hennar ekki að neinni sök. Það er flottur liðsbragur á Grindavíkurliðinu en þó ekki á neinar hallað í kvöld þótt leiðtogar liðsins, Hrund Skúladóttir og Ingibjörg Jakobs séu teknar út fyrir sviga en þær voru með 38 og 31 framlagspunkt. Hrund var grátlega nærri hinni heilögu FERNU með 22 stig, 11 fráköst, 9 stoðsendingar og 8 stolna bolta! Aldeilis frábær leikur hjá henni sem skilaði sér í 38 framlagspunktum. Gamla brýnið Ingibjörg var stigahæst með 25 stig og 6 stoðsendingar. Ólöf Rún var líka flott með 15 stig og nýtti skot sín vel.

Hrefna Ottósdóttir var nefnd af þjálfaranum sínum enda ekki að ósekju en hún var stigahæst Þórsara með 24 stig. Þó skilaði Sylvía Rún Hálfdánardóttir hæstu framlagi eða 19, var með flotta tvennu (19 stig og 10 fráköst). Kristún Ríkey Ólafsdóttir kom sér líka yfir 10 stiga múrinn, 13 stig og var með 16 framlagspunkta.

Næsti leikur liðanna fer fram á Akureyri á mánudagskvöld kl. 19:15.

Tölfræði leiks

Umfjöllun & viðtöl / Sigurbjörn Daði