Þriðji leikur Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn í átta liða úrslitum Dominos deildar karla í körfuknattleik fór fram í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.  Tindastóll hafði unnið fyrstu tvo leikina í einvíginu og heimamenn í Síkinu bjuggu sig undir að hefja sópinn á loft og tryggja sæti sitt í undanúrslitunum en það fór aðeins á annan veg.  Tindastólsliðið virkaði algerlega andlaust frá byrjun og gestirnir gengu á lagið og lönduðu frábærum sigri.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en eftir þrist frá Danero í byrjun jöfnuðu Þórsarar og komust yfir og leiddu yfirleitt með 4-6 stigum þangað til heimamenn tóku sig aðeins saman í andlitinu í lokin og náðu að komast yfir 22-20 með þremur vítum frá Friðrik.  Þórsarar áttu þó síðustu körfuna og jöfnuðu 22-22.  Barningurinn hélt áfram í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að klikka á skotum en Ragnar Þór var þó að hitta vel fyrir Þór fyrir utan þriggja stiga línuna.  Lokasókn Tindastóls í hálfleiknum klikkaði illilega og Kinu Rochford lagði í fyrir 2 stigum á lokasekúndunni og kom Þór yfir 41-43.

Upphaf þriðja leikhluta fór svo alveg með leikinn hjá heimamönnum.  Þeir gátu ekki keypt körfu, hittu ekki úr 10 fyrstu skotum sínum í leikhlutanum og höfðu aðeins sett eitt stig úr víti þegar Brynjar setti loks niður þrist þegar rúmar 6 mínútur voru liðnar af leikhlutanum!  Þá voru Þórsarar búnir að setja nokkur stig á töfluna þó þeir væru ekki að spila glimrandi sóknarleik en þristurinn frá Brynjari minnkaði muninn í 10 stig.  Ömurleg hittni heimamanna hélt svo bara áfram og Þórsarar gengu auðvitað á lagið og leiddu 47-60 fyrir lokaleikhlutann.  Þórsarar unnu þriðja leikhlutann með 17 stigum gegn 6 og það eru ekki tölur sem sjást oft í efstu deild.

Vandræði heimamanna héldu svo áfram í lokaleikhlutanum og Þórsarar höfðu nú öðlast trú á verkefninu en þeir höfðu einmitt tapað niður góðri forystu í fyrsta leik liðanna.  Það var ekki á dagskrá í kvöld, Þór sýndi gríðarlega baráttu og voru betri en heimamenn í öllum aðgerðum, ekki síst í fráköstunum en sá þáttur leiksins hafði farið illa hjá þeim í síðasta leik.  Danero Thomas kveikti smá von hjá heimamönnum með tveimur snöggum þristum 59-65 en Tomsic var fljótur að svara með þristi og eftir skamma stund var staðan orðin 59-75 og innan við 4 mínútur eftir.  Þórsarar litu ekki til baka eftir þennan sprett og lönduðu 20 stiga sigri 67-87.

Hjá gestunum átti Tomsic góðan leik með 23 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar auk þess að spila öfluga vörn á Pétur Rúnar allan leikinn.  Kinu Rochford virkaði betri af meiðslum sem hafa verið að hrjá hann og setti 17 stig og 10 fráköst.  Davið Örn (15 stig) og Ragnar Þór (13 stig) bættu svo við framlagið hjá Þórsurum sem höfðu saknað þeirra.

Hjá heimamönnum virtist hausinn einfaldlega ekki vera í lagi.  Svo virtist sem menn teldu þennan leik bara formsatriði að klára og það helst án þess að fara úr 3ja gír.  Slíkt viðhorf skilar mönnum einfaldlega ekki langt, þetta lið þarf að ná upp baráttu frá byrjun og aggressívri vörn og það skilar sigrum eins og við sáum í Þorlákshöfn í síðasta leik.  Svona hálfkák eins og sást í kvöld skilar bara töpuðum boltum, misheppnuðum skotum bæði löngum og stuttum og skelfilegum varnarleik þar sem menn týndi sínum manni hvað eftir annað.  Danero Thomas var sá eini sem sýndi smá lífsmark, skilaði 16 stigum og 6 fráköstum en aðrir leikmenn virkuðu dofnir og alls ekki tilbúnir í verkefnið.  Tindastóll verður að girða sig í brók fyrir næsta leik í Þorlákshöfn, annars verða úrslitin þar bara á sama veg.

Mynd: Kinu sækir að körfunni

Viðtöl:


Umfjöllun, viðtöl og myndir: Hjalti Árna