Vestri og Fjölnir mættust í öðrum leik sínum í undanúrslitunum um laust sæti í Úrvalsdeildinni á Jakanum á Ísafirði í kvöld. Fjölnir vann fyrri leikinn örugglega 83-71 á föstudaginn. Vestri spilaði án leikstjórnanda síns, Nebojsa Knezevic, sem var að taka út leikbann.

Fjölnir skoraði fyrstu körfu leiksins með þriggja stiga skoti frá Róbert Sigurðssyni eftir 30 sekúndna leik og lét forustuna aldrei af hendi eftir það. Mest náði Fjölnir 18 stiga forustu, 34-52, í þriðja leikhluta. Vestri minkaði muninn í 8 stig þegar 3:28 voru eftir en Fjölnir svaraði með 5 stigum í röð og gerði út um leikinn. Lokastaðan 72-82 fyrir Fjölni.

Liðin mætast aftur á fimmtudaginn í Dalhúsum en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer áfram.

Helstu stigaskorarar
Hjá Vestra var Jure Gunjina stigahæstur með 25 stig en Nemanja Knezevic kom næstur með 14 stig og Adam Smári Ólafsson skoraði 13 stig.

Hjá Fjölni var Marques Oliver stigahæstur með 18 stig, Róbert Sigurðsson var með 17 og Srdan Stojanovic 16 stig.

Tölfræði leiksins