Skallagrímur lék sinn síðasta leik í Dominos deild karla í bili er liðið tapaði fyrir Njarðvík í lokaumferð deildarinnar í gærkvöldi. Borgnesingar enda í ellefta sæti deildarinnar með 8 stig.

Þrátt fyrir tapið léku Borgnesingar ágætlega í leiknum en liðið lék án Eyjólfs Ásbergs Halldórssonar og Domogoj Samac. Liðið fékk tækifæri til að gefa ungum leikmönnum sénsinn í lok leiks þegar sigur Njarðvíkur var orðinn að staðreynd.

Tvíburarnir Aron Ingi og Andri Steinn Björnssynir auk Alexanders Jóns Finnssonar léku sýna fyrstu meistaraflokksleiki gegn gríðarlega sterku liði Njarðvíkur. Þeir eru allir fæddir árið 2004 og verða því 15 ára á árinu. Þeir Aron og Andri eru orðnir 15 ára en Alexander er enn einungis 14 ára gamall.

Til gamans má geta að Alexander Jón er sonur Finns Jónssonar þjálfara Skallagríms sem stýrði einmitt sínum síðasta leik fyrir Borgnesinga í gær. Þeir Aron Ingi og Andri Steinn eru synir Bjarka Þorsteinssonar sem lék einnig með Skallagrím á árum áður auk þess að sitja í stjórn félagsins.

Ljóst er að framtíðin er björt í Borgarnesi ef þessir ungu efnilegu strákar halda áfram að bæta sig í liði Skallagríms. Liðið fær tækifæri til að vinna sér inn sæti í Dominos deildinni á nýjan leik á næsta tímabili og verður fróðlegt að sjá hvort þessir ungu leikmenn verði í hlutverkum á því tímabili.