Körfuknattleiksþing KKÍ fer fram í Laugardalnum þessa stundina þar sem helstu ákvarðanir um framtíð körfunnar verða teknar.

Þingsályktun frá fjárhagsnefnd vegna fjárhagsáætlunnar 2019 hefur verið mikið rædd en hún er í fjórum liðum. Tveir fyrstu liðirnir beinast að þátttökugjöldum og félagaskiptagjöldum leikmanna. Umæðan skapaðist vegna fjárhagsáætlunar KKÍ 2019 þar sem sambandið er veikt fjárhagslega. Báðir liðir voru samþykktir að lokum.

Í þriðja liðnum kemur fram að KKÍ mun greiða dómarakostnað hjá tveimur efstu deildunum og senda reikning mánaðarlega til félagana. Hingað til hafa félögin sjálf greitt dómurum beint. Sú tillaga var samþykkt samhljóma.

Fjórði liðurinn sneri að vangreiddum skuldum félaganna við KKÍ. Því var beint til stjórnar KKÍ að setja hert viðurlög við vangreiddum skuldum. Í upprunalegri þingsályktunartillögu stóð til að mynda: „Það er ekki líðandi að félög skuldi sambandinu eða dómurum greiðslur í marga mánuði á sama tíma og virðast vera nægir fjármunir í t.d. erlenda leikmenn. Greiðslur eiga að skila sér á eindaga, án undantekninga, að öðrum kosti sæti umrætt félag hörðum viðurlögum.“

Miklar umræður spunust út frá þessari ályktun og ekki allir á sama máli. Fram kom fyrr á þinginu að einhver félög hefðu ekki fengið þingfulltrúa á körfuknattleiksþingi dagsins vegna vangreiddrar skuldar.

Félagaskiptagjöld erlendra leikmanna eru að hluta til komin til vegna gjalda sem KKÍ þarf að borga til FIBA Europe. Því kom það fram að vangreiddar skuldir félaganna yrðu til þess að skuldir KKÍ myndu hækka, hærri yfirdrátt þyrfti að taka og því ákveðin snjóboltaáhrif sem færu af stað sem væru alvarleg fyrir sambandið.

Einnig kom upp það viðhorf að uppi væri skekkt samkeppnisstaða félaga sem ekki borga skuldir sínar gagnvart þeim sem borga hafa sínar skuldir. Í pontu var tekið dæmi að félög hefðu bókstaflega grætt á því að borga ekki þær skuldir og unnið deild sína. Önnur félög í baráttu í deildinni hefðu sannarlega getað nýtt sér sömu upphæð til að styrkja samkeppnisstöðu sína.

Einnig kom fram að í lögum KKÍ er stjórn veitt þau viðurlög að dæma liðum ósigur 20-0 sé svo að félagið sé í alvarlegri skuld við sambandið.

Eftir miklar umræður og vangaveltur var því ákveðið að útbúa breytingartillögu sem beinir því til stjórnar með tilliti til fjárhgsstöðu KKÍ að beita þeim viðurlögum sem fyrir eru. Ályktunin hljómar því eftirfarandi: „Þá beinir nefndin því til stjórnar KKÍ að sambandið beiti þeim viðurlögum sem fyrir eru í reglum sambandsins vegna vangreiddra gjalda aðildarfélaga við sambandið, eins og til er í regluverki KKÍ að vísa liði úr móti. Greiðslur eiga að skila sér á eindaga, að öðrum kosti sæti umrætt félag viðurlögum.“ Ályktunin var samþykkt á þinginu.