Borgnesingar féllu úr deild þeirra bestu á nýjan leik í síðustu viku en liðið kom sem nýliðar inní deildina fyrir tímabilið. Liðið endar í 11 sæti deildarinnar en ein umferð er eftir af deildarkeppninni.

Miklar væntingar voru gerðar til Eyjólfs Ásbergs Halldórssonar fyrir tímabilið en hann var að hefja sitt þriðja tímabil með Skallagrím. Talið var að hann yrði mikilvægur factor fyrir lið Skallagríms sem ætlaði að halda sæti sínu í deildinni.

Karfan heyrði hljóðið í Eyjólfi nú þegar fallið er orðið að staðreynd en hann var ekki með liði Skallagríms sem tapaði fyrir Tindastól um síðustu helgi. Hann staðfesti að tímabilið væri búið hjá honum og hann yrði frá í 4-5 vikur.

„Veturinn er búinn að vera mjög erfiður hjá mér. Þetta byrjaði vel hjá mér og liðinu en svo koma meiðslin í ljós í byrjun nóvember en þá eru aðeins fimm leikir búnir. Síðan þá er ég bara búinn að vera meiddur.“ sagði Eyjólfur um tímabilið

„Ég reyndi alltaf að gera mitt besta þrátt fyrir að vera aðeins hálfur maður.“

Fyrstu fimm leikirnir voru frábærir fyrir Eyjólf sem var með 21 stig að meðaltali í þessum leikjum og átti meðal annars frábæran leik í sigri á ÍR í fjórðu umferð. Eftir það komu leikir þar sem hann náði sér ekki strik og hlaut nokkra gagnrýni fyrir vikið.

„Meiðslin eru sérstök, þetta er álagsmeiðsli í bakinu og með því missi ég alla þá snerpu og kraft sem ég hafði. Ástæðan er sú að ég byrja nota sérstakt innlegg í skóinn eftir að hafa greinst með 2cm mismun á hægri og vinstri fótleggjum og tekur tíma að venjast því.“

„Ég náði mér aldrei 100% eftir það en var þó skárri í þeim leikjum sem ég fékk góða hvíld fyrir. Það breytti því samt ekki að þar sem ég æfði aldrei almennilega þá kom engin taktur eða leikæfing“ sagði Eyjólfur um meiðslin og bætti við:

„Ég hef reynt að spila alla leiki meiddur þó ég hafi kannski lítið æft í vikunni fyrir leik. Ég hef líka misst af nokkrum leikjum þegar ég gat alls ekkert beitt mér. Það er búið að vera ömurlegt að geta ekki verið sá leikmaður sem liðið stólaði á að ég væri. Ég reyndi þó alltaf að gera mitt besta þrátt fyrir að vera aðeins hálfur maður.“

Flestir höfðu búist við meiru af Eyjólfi á tímabilinu en hann endar með 11,6 stig, 5,9 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali á tímabilinu með Skallagrím.

„Það hefur verið erfitt fyrir mig að stuðningsmenn Skallagríms og fleiri hafa líklega ekki verið ánægð með minn leik.“

„Vonandi gefur þessi frásögn þeim betri hugmynd um hver ástæðan sé. Ég þarf góða hvíld fyrir bakið núna en sérfræðingar og læknar hafa sagt mer að fljótlega ætti ég að vera orðinn mjög góður en það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður þrátt fyrir erfiða síðustu mánuði.“ sagði Eyjólfur sem var valinn besti leikmaður 1. deildar karla á síðustu leiktíð.

Eyjólfur viðurkenndi að þetta hefði verið hans erfiðasta tímabil, ekki síst andlega. „Það er ekkert grín að lenda í svona. Sérstaklega í upphafi sem ég hafði ekki hugmynd hvað væri í gangi með skrokkinn á mér. Læknar og sjúkraþjálfarar fundu heldur ekki hvað amaði að og fylgdi því mikil óvissa og þunglyndi en það kom sem betur fer í ljós seinna.“

„Það er ekkert grín að lenda í svona”

Skallagrímur er fallið í 1. deild á ný og viðurkenndi Eyjólfur að tímabilið væru gríðarleg vonbrigði. „Þegar ég mun horfa til baka á þetta tímabil mun ég alltaf finnast við hafa getað gert mikið betur en að falla og því mun ég horfa á þetta með mikilli eftirsjá því það eru geggjaðir strákar í þessu liði.“

Eyjólfur er samningslaus í sumar og því eru eðlilegar vangaveltur um hvort hann sjái fyrir sér að leika áfram í Borgarnesi eða leita annað.

„Það kemur allt til greina og auðvitað myndi ég hlusta á það ef Skallagrímur myndi vilja halda mér því þeir eiga það skilið eftir allt sem þessi klúbbur hefur gefið mér. Það gæti verið að ég hafi leikið minn síðasta leik með Skallagrím. Ég get bara ekki beðið eftir næsta tímabili að geta spilað heill og ferskur aftur á nýjan leik hvar sem það verður.“ sagði Eyjólfur að lokum bjartsýnn fyrir komandi tímum þrátt fyrir erfitt tímabil.