Fyrsti leikur nítjándu umferðar Dominos deildar karla fór fram í kvöld eftir langt bikar-og landsliðshlé.

Þar tóku Borgnesingar á móti Þór Þ en leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið á mismundandi stöðum í töflunni. Leikurinn var jafn framan af leik en fyrri hálfleikur bar þess merki að langt er síðan síðasti leikur fór fram.

Þórsarar voru einfaldlega sterkari svo í seinni hálfleik þar sem maður á mann vörn liðsins var ógnarsterk og Borgnesingar fundu engar leiðir. Skallagrímsmenn virtust skorta einbeitingu og eyddu mikilli orku í dómara leiksins. Á meðan voru Þórsarar öflugir á báðum endum og unnu að lokum sannfærandi sigur.

Merkilegt atvik átti sér stað í seinni hálfleik þar sem dómari leiksins tók fyrra vítið af Matej Buovac er hann hafði fiskað óíþróttamannslega villu. Ástæðan var sú að dómaranum fannst skotmaðurinn ekki hafa sýnt gott attitude í átt að vítalínunni.

Lokastaðan var 74-89 fyrir Þórsurum sem jafna þar með KR að stigum í fimmta sæti deildarinnar. Skallagrímur er enn í 11. sæti og leika gríðarlega mikilvægan leik gegn Val á fimmtudag þar sem örlög liðsins geta ráðist.

Kinu Rochford hélt áfram að malla BBQ stöppuna og endaði með 23 stig og 12 fráköst. Þá var Nick Tomsick með 20 stig og 12 stoðsendingar.

Hjá Skallagrím bar Bjarni Guðmann af með frammistöðu sinni í dag. Hann endaði 19 stig, 9 fráköst og sýndi gott fordæmi í baráttu sinni. Aðrir lykilmenn Borgnesinga voru heillum horfnir sem er óskiljanlegt í svo mikilvægum leik eftir langt frí. Þriggja stiga nýting Skallagríms var 12% eða 3 af 25 í skotum sem er ansi hreint slappt.

Viðtöl úr leiknum eru væntanleg á Körfuna.

Tölfræði leiksins

Myndasafn