Alvogen býður öllum á leik KR og Breiðabliks

Helgi Már verður í DHL höllinni annað kvöld

Síðasta umferð Dominosdeildar karla verður leikin annað kvöld, fimmtudagskvöldið 14. mars. KR mun leika lokaleik deildarkeppni sinnar gegn nýliðum Breiðabliks. Mun Alvogen við það tilefni bjóða öllum á völlinn.

Íslandsmeistarar KR að sjálfsögðu ennþá í harðri baráttu um heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Sem stendur í 5. sætinu. Þurfa þeir að vinna þennan leik til þess að það geti orðið að veruleika, en einnig þurfa þeir að treysta á að Keflavík vinni Tindstól. Þar sem að verði liðin jöfn að stigum eiga þeir innbyrðisviðureignina gegn Tindastól en ekki Keflavík.

Alvogen sem er stærsti bakhjarl Körfuknattleiksdeildar KR ætlar að bjóða á leikinn og eru stuðningsmenn hvattir til að nýta tækifærið og upplifa skemmtilega kvöldstund í DHL-Höllinni.

Fyrstu borgarar kvöldsins verða klárir 18:00 og því tilvalið að mæta í burger fyrir leik og fara yfir málefni líðandi stundar.